„Alveg nýtt lag í tjáningunni“

Flautuleikarar Bjarkar.
Flautuleikarar Bjarkar. Einar Falur Ingólfsson

Þær kalla sig viibra, konurnar í flautuseptettinum sem mun leika með Björk Guðmundsdóttur á tónleikum í Háskólabíói á mánudagskvöldið kemur og aftur á fimmtudag. Eins og Björk orðaði það í samtali okkar á dögunum, þá verður það „eins konar generalprufa fyrir væntanlega tónleikaferð“ um heiminn, ferð sem er farin til að fylgja eftir útgáfu nýrrar plötu Bjarkar, Utopia, og mun standa með hléum næstu tvö til þrjú árin. Auk flautuleikaranna sjö koma fram með Björk ásláttarleikarinn Manu Delago og Bergur Þórisson sem leikur á básúnu og sér um rafhljóð.

Viibra skipa flautuleikararnir Melkorka Ólafsdóttir, Áshildur Haraldsdóttir, Berglind María Tómasdóttir, Steinunn Vala Pálsdóttir, Björg Brjánsdóttir, Þuríður Jónsdóttir og Emilía Rós Sigfúsdóttir. Þær hafa æft fyrir tónleikana undanfarna mánuði og af þunga síðustu vikur, þar sem þær hafa auk þess að læra útsetningar Bjarkar utanbókar æft sviðshreyfingar með Margréti Bjarnadóttur danshöfundi, dansara og myndlistarkonu.

Þær segja ekki nýtt fyrir þær að spila sjö flautuleikarar saman. „En að vera sjö flautuleikarar saman að spila svona tónlist og hreyfa sig með, það er ný reynsla,“ segja þær brosandi.

Og þær eru á sviðinu mestalla tónleikana. „Þar sem við erum á hreyfingu þá er þetta öðruvísi en við erum vanar, að sitja yfirleitt og horfa á nótur. Við erum búnar að læra alla partana til að geta verið hreyfanlegt afl sem fer um sviðið og gerir allskyns spor. Það höfum við ekki gert í svona samhengi áður. Þetta er frekar sérstök blanda, og mjög spennandi…“

Margrét Bjarnadóttir, danshöfundur og myndlistarkona
Margrét Bjarnadóttir, danshöfundur og myndlistarkona Einar Falur Ingólfsson

Melkorka segir að þetta sé óneitanlega áskorun fyrir þær, sem koma allar úr hinu klassíska, hefðbundna tónlistarumhverfi. „Við erum óvanar að vera í svona sjói,“ segir hún.

„Í nútúmatónlist er vissulega búið að prófa allskyns hluti,“ segir Berglind María, „eins og meðvitaðar hreyfingar á sviði – en það er samt talsvert annað en það sem við höfum verið að æfa með Björk, fyrir utan að þetta en önnur tónlist.“

Aðrar í hópnum bæta við að þegar engar nótur séu og þær ekki fastar á sviðinu, þá „bætist við alveg nýtt lag í tjáningunni. Við nálgumst flutninginn á fjölbreytilegri máta en við og áhorfendur eiga að venjast.“

Auk þess að leika á flautur af ýmsum gerðum, frá skærum pikkalóflautum niður í bassaflautur, þá leika þær á blístrur sem framkalla fuglahljóð og og framkalla, eins og Björk orðaði það, „ákveðna sándeffekta, alls konar yfirtóna og vindhljóm.“

„Það eru flókin mynstur á skiptingum milli laga, hvar og hvenær við eigum að skipta um flautur, það er allt undir,“ segja þær og hlægja.

Mjög lífræn tónlist

Margrét Bjarnadóttir samdi í fyrra, með Ragnari Kjartanssyni og Bryce Dessner, fyrir Íslenska dansflokkinn hið rómaða dansverk No Tomorrow. Þar þurftu dansarar að læra á gítara og leika á þá meðan þær dönsuðu. Margrét segist á vissan hátt nálgast þetta verkefni eins.

„Þessi verkefni eiga margt sameiginlegt, í báðum tilvikum vinn ég með rosalega miklum fagmanneskjum á sínu sviði, en nú nálgast ég það í hina áttina. Báðir hópar eru að gera eitthvað sem þeir kunna ekki og það er mjög auðmýkjandi, í jákvæðri merkingu. Ég er svag fyrir því.“

Og flautuleikararnir taka undir þau orð. „Við erum ekki þjálfaðir dansarar en við kunnum á flauturnar!

Margrét horfði á okkur leika lögin í gegn, til að sjá náttúrulegar hreyfingar, og vann út frá því,“ segja þær um sporin og bæta við að þær hafi til að mynda unnið með „flautuhreyfingu sem við köllum áttuna og er nú orðin að dansspori.“

Þær viðurkenna að suma flautupartana hafi verið erfitt að læra.

„Stundum leika sumar sömu nótuna í allt að þrjátíu takta, þá kemur smá breyting, meðal hærri flauturnar leika laglínuna - en oft sitt á hvað.

Línurnar eru oft ófyrirsjáanlegar, og því hefur verið erfitt að læra sumar, en þær flétast svo mjög fallega saman. Svo eru taktarnir oft óreglulegir og með mjög spennandi frávikum. Þetta er mjög lífræn tónlist og það hefur verið mjög gaman að vinna með Margréti út frá lífrænum og náttúrulegum hreyfingum flautuleikarans.“

Með fullkomnunaráráttu

„Ramminn um þetta verkefni er mjög skýr - sjö flautuleikarar og tónlistin,“ segir Margrét. Þær spila í nánast öllum lögum og hreyfa sig í mörgum. Tónleikarnir hér í næstu viku eru æfingatónleikar og það kann að vera að við þróum þetta áfram …“

Margrét kemur sjálf úr heimi dansins en þegar spurt er hvort hún hafi gert of miklar kröfur til flautuleikaranna, telur hún svo ekki vera. „Ég held ég geri aldrei meiri kröfur til þeirra en þær gera til sín. Ég hef komist að því að dansarar og flautuleikarar eiga það sameiginlegt að vera með mikla fullkomnunaráráttu.

Ég reyni að vinna með hreyfingar sem eru flautuleikaranum eðlislægar og frekjar ýkja þær, og draga um leið eitthvað nýtt fram, en fer alls ekkert á móti tónlistinni.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert