„Miklar áhyggjur eru innan Sjálfstæðisflokksins vegna þriðja orkumálapakka Evrópusambandsins. Málið snýst um fullveldið yfir orkuframleiðslunni og stjórn auðlindanna.“
Þetta segir Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í samtali við norska dagblaðið Klassekampen um orkulöggjöf Evrópusambandsins sem til stendur að taka upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið (EES) sem Ísland á meðal annars aðild að.
Stórþingið í Noregi samþykkti orkulöggjöfina á dögunum en miklar deilur hafa staðið yfir um málið í landinu. Til þess að löggjöfin verði formlega tekin upp í EES-samninginn þarf samþykki Alþingis en málið verður væntanlega tekið fyrir innan þess á næstunni.
Fram kemur í fréttinni að Klassekampen hafi reynt að leita svara frá Vinstrihreyfingunni - grænu framboði um afstöðu flokksins til málsins í ljósi þess að bæði landsfundur Sjálfstæðisflokksins og flokksþing Framsóknarflokksins hafi lagst gegn orkulöggjöfinni.
„Það gæti orðið nei [við orkulöggjöfinni]. Við stöndum frammi fyrir langri umræðu næstu vikurnar en við munum ekki segja já án þess að vita afleiðingar þess til lengri tíma,“ er ennfremur haft eftir Njáli Trausta. Málið verði væntanlega tekið fyrir á Alþingi fyrir sumarið.