GRECO, samtök ríkja innan Evrópuráðsins gegn spillingu, munu birta skýrslu um fimmtu úttekt samtakanna á Íslandi á fimmtudag en birting hennar var heimiluð á ríkisstjórnarfundi í morgun.
Úttektin tók annars vegar til æðstu handhafa framkvæmdarvalds og hins vegar til löggæslu. Til æðstu handhafa framkvæmdarvalds teljast ráðherrar, ráðuneytisstjórar og aðstoðarmenn ráðherra vegna eðlis starfs þeirra og nálægðar við starfssvið ráðherra.
Skýrslunni fylgja alls 18 ábendingar til íslenskra stjórnvalda um úrbætur, þar af níu varðandi æðstu handhafa framkvæmdarvalds og níu á sviði löggæslu. Stjórnvöldum er veittur frestur til 30. september 2019 til að bregðast við ábendingunum.
Meðal ábendinga er að siðareglur fyrir æðstu handhafa framkvæmdavalds verði samræmdar, unnið verði leiðbeiningarefni með skýringum og raunhæfum dæmum og hægt verði að leita ráðgjafar um þær í trúnaði. Þá verði til staðar eftirlitsaðili með framkvæmd siðareglnanna og viðurlagakerfi komið á fót.
Reglur um aukastörf æðstu handhafa framkvæmdarvalds verði endurskoðaðar og gerð skýrari grein fyrir því hvaða störf eru heimil og hver ekki.