Erum alltaf að velja einhver vörumerki

Katrín Jakobsdóttir tók við vörumerkinu Icelandic úr hendi Þorkels Sigurlaugssonar, …
Katrín Jakobsdóttir tók við vörumerkinu Icelandic úr hendi Þorkels Sigurlaugssonar, stjórnarformanns Framtakssjóðs Íslands. mbl.is/Valgarður Gíslason

Forsvarsmenn Icelandic Group ehf. afhentu Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra vörumerkið Icelandic og Icelandic Seafood, íslensku þjóðinni til ævarandi eignar, í Safnahúsinu síðdegis. „Hugsunin er auðvitað sú að við gætum að vörumerkjunum,“ sagði Katrín við mbl.is.

Auk Katrínar voru Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra á staðnum og héldu þeir, auk Katrínar, stutta ræðu. Þorkell Sig­ur­laugs­son, stjórn­ar­formaður Fram­taks­sjóðs Íslands, kynnti Bjarna upp í pontu sem „Bjarna Benediktsson forsætisráðherra“.

„Nei, nei, fjármála,“ var Bjarni fljótur að segja og uppskar hlátur viðstaddra. Allir töluðu ráðherrarnir um að það yrði að hlúa að vörumerkjunum og sjá til þess að því fylgdu ákveðin gæði.

Vörumerkin eru í eigu Icelandic Trademark Holding ehf. sem heldur utan um skráningu, vernd og notkun vörumerkjanna og tryggir að þau séu nýtt í tengslum við sölu og markaðssetningu íslenskra afurða og þjónustu. Markmiðið er að vörumerkin nýtist sem best í þágu íslensks atvinnulífs á breiðum grundvelli til framtíðar. 

„Þau gefa okkur vörumerki í raun og veru gegn ströngum skilyrðum; sú vara og þjónusta sem verður markaðssett undir þessum merjum mun uppfylla ákveðnar gæðakröfur,“ sagði Katrín.

Forsætisráðherra kom að vörumerkjum almennt í sínu máli og sagði þennan menningarheim hafa gríðarleg áhrif á daglegt líf okkar. „Maður sér það sérstaklega hjá yngri kynslóðunum sem eru mjög uppteknar af einhverjum ákveðnum merkjum. Um leið á það reyndar við okkur öll; við erum alltaf að velja einhver vörumerki.“

Katrín sagði að Íslendingar ættu mikil verðmæti í jafnsterku vörumerki og Icelandic er. „Það er mjög mikilvægt að það verði séð til þess að það verði haldið uppi gæðum og vörumerkið standi undir væntingum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert