Lögreglan engu nær að finna tölvurnar

Rannsókn stendur enn yfir, en ekkert hefur komið fram um …
Rannsókn stendur enn yfir, en ekkert hefur komið fram um afdrif búnaðar úr gagnaverunum. mbl.is/Hjörtur

Stærsta þjófnaðarmál Íslandssögunar er enn óleyst og segist lögreglan engu nær í að finna þær 600 tölvur sem voru teknar úr gagnaverum í Reykjanesbæ og Borgarbyggð í byrjun ársins. Einn er enn í haldi vegna málsins, en hann sætir síbrotagæslu til 16. apríl og er ekki ljóst hvort varðhaldið verði framlengt.

„Okkur hafa borist nokkrar ábendingar, enn sem komið er hefur ekkert þeirra hefur gert okkur kleift að finna það sem við erum að leita að,“ segir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, við mbl.is.

Spurður um hvort talið sé enn að tölvubúnaðurinn sé innanlands, segir Ólafur ekkert benda til þess sérstaklega að hann hafi verið sendur úr landi og að líklegra sé að búnaðurinn sé ætlaður til notkunar hér innanlands. Jafnframt er lögreglan ekki reiðubúin til þess að útiloka að málið tengist skipulagðri glæpastarfsemi.

Alls hafa 23 verið handteknir og yfirheyrðir við rannsókn málsins. Tveir voru látnir sæta gæsluvarðhald um tíma og var meðal þeirra öryggisvörður Öryggismiðstöðvarinnar sem síðar var látinn laus. Einn þessara tveggja manna er enn í haldi lögreglu og sætir hann síbrotagæslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka