Rósa Björk Brynjólfsdóttir, þingkona úr VG, ásamt tíu öðrum þingmönnum úr fimm stjórnmálaflokkum, hefur óskað eftir skýrslu frá utanríkisráðherra um framkvæmd alþjóðlegra skuldbindinga er varða flutning á vopnum.
Fréttaskýringaþátturinn Kveikur á RÚV greindi frá því í lok febrúar að íslensk stjórnvöld hafi á undanförnum árum heimilað flugfélaginu Air Atlanta að flytja hergögn frá ríkjum í Austur-Evrópu til Sádi-Arabíu.
Þingmennirnir óska eftir því að utanríkisráðherra, Guðlaugur Þór Þórðarson, svari því hvort ríkið hafi brotið bann öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna um vopnaflutning.
„Mikilvægt er að í skýrslunni verði tekinn af allur vafi um að íslenska ríkið standi við alþjóðlegar skuldbindingar sínar um vopnaflutninga og að í öllu hafi verið farið að íslenskum lögum þegar kemur að þeim undanþágubeiðnum sem samþykktar voru og sneru að vopnaflutningum,“ segir meðal annars í greinargerð þar sem skýrslunnar er óskað.
Vísað er í viðtal við forstöðumann Samgöngustofu þar sem fram kom að stofnunin hefði enga sérfræðiþekkingu um vopna- og alþjóðamál. Mikilvægt sé að skýrt verði tekið fram hvaða verkferlar fóru af stað innan stjórnsýslunnar þegar þetta varð ljóst og hver ber ábyrgð á þeim svo að tryggja megi að ákvarðanir af þessu tagi verði teknar með nægilega upplýstum hætti.
„Telja verður að ákvörðun um veitingu undanþágu sem heimilar vopnaflutning sé þess eðlis að sérstaklega ríkar kröfur um fyllstu aðgát verði að gera og að krefjast megi þess að málið verði rannsakað til hlítar. Á það einkum og sér í lagi við þar sem vísbendingar eru um að vopn fari til ríkis sem sætir verulegum hömlum á viðskiptum með vopn af hálfu öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna, þar sem líklegt er að þau verði notuð til voðaverka,“ segir í greinargerðinni sem hægt er að lesa hér.