Mikilvægt að upplifa að þau séu samþykkt

Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og Ásmundur Einar, félags- og jafnréttismálaráðherra, á …
Haraldur Sverrisson bæjarstjóri og Ásmundur Einar, félags- og jafnréttismálaráðherra, á spjalli við hluta flóttafólksins á móttökunni í dag. mbl.is/Árni Sæberg

„Þau hafa öll ótrúlega sterka félagslega getu og eins stutt og við erum komin í þessu þá finnst mér þeim ganga rosalega vel,“ segir Eva Rós Ólafsdóttir, verkefnastjóri móttöku flóttafólks hjá Mosfellsbæ, en nú síðdegis var haldin sérstök hátíðarmóttaka fyrir þá tíu flóttamenn sem bærinn tók á móti frá Úganda 19. mars síðastliðinn.

Móttakan hófst á ávarpi frá bæjarstjóra Mosfellsbæjar, Haraldi Sverrissyni, þar sem hann bauð flóttafólkið velkomið og kynnti bæjarlífið stuttlega. Á eftir honum kom Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra, sem minntist sérstaklega á mikilvægi Samtakanna ´78, en fyrir stofnun þeirra þekktist að fólk flytti af landi brott vegna kynhneigðar sinnar. Ótrúlegt væri að 40 árum seinna væri Ísland áfangastaður hinsegin flóttafólks.

„Þau hafa verið í góðu samstarfi við Samtökin ´78 sem hafa stutt við bakið á þeim. Það er mjög mikilvægt fyrir þau að upplifa að þau megi vera og að þau séu samþykkt hérna í þessu samfélagi,“ segir Eva Rós í samtali við mbl.is.

Hún segir hópinn strax byrjaðan að aðlagast íslensku samfélagi. „Þau eru að gera svona litlar breytingar eins og að mæta á réttum tíma. Þeim finnst fáránlegt hvað við mætum snemma hérna. Það eru þessar litlu breytingar sem við erum að horfa á sem mjög jákvæð skref.“

Haraldur Sverrisson ávarpaði flóttafólkið og aðra gesti. Hakim er við …
Haraldur Sverrisson ávarpaði flóttafólkið og aðra gesti. Hakim er við hlið Ásmundar Einars og Keneth fyrir miðju í gráum jakka. mbl.is/Árni Sæberg

Stuðningurinn kemur á óvart

Blaðamaður mbl.is tók einnig tali tvo flóttamannanna, þá James Keneth Katwere og Hakim Abramz. Þeir kváðust báðir hafa haft það gott síðan þeir komu hingað til lands fyrir rúmlega þremur vikum.

„Ég held ég sé að aðlagast vel. Allir hafa látið okkur líða velkomnum og veita okkur stuðning. Við finnum að fólk er til staðar fyrir okkur,“ segir Keneth og Hakim tekur undir með honum.

Aðspurðir segja þeir ekkert hafa komið þeim sérstaklega á óvart eftir komuna til landsins, en það sé hvað helst veðrið sem þeir þurfi að venjast. „Við höfum bara séð góða hluti. Það er engin leið til að bera saman Ísland við Afríku,“ segir Hakim.

„Það eina sem kemur á óvart er ástin, umhyggjan og stuðningurinn,“ segir Keneth að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka