„Ég hef áður sagt að ég mun ekki skapa það fordæmi að ásökun ein og sér dugi til að hrekja fólk úr starfi,“ segir Ragnar Þór Pétursson, verðandi formaður Kennarasambands Íslands, um þá áskorun sem fulltrúar á þingi KÍ greiða í dag atkvæði um og mbl.is greindi frá í morgun.
Samkvæmt tísti frá Félagi framhaldsskólakennara hefur áskorunin verið lögð fram, en kennarar ræða um þingið undir kassmerkinu #thingki2018.
Í bloggi á vef Stundarinnar segist Ragnar Þór „harma það að þessi mikilvægi málaflokkur sé notaður með þessum hætti í valdabaráttu,“ en áskorunin var lögð fram í tengslum við umræður á kennaraþingi um byltingar kvenna gegn ofbeldi.
„Slíkt fordæmi gæti opnað á atburðarás sem gæti orðið kennarastétt og samfélaginu verulega skaðleg,“ segir Ragnar Þór, sem segist hafa fengið að heyra af því í aðdraganda þingsins að til standi að koma í veg fyrir að hann taki við formennsku í KÍ.
„Mér var sagt að verið væri að reyna að smala á þingið. Ég var hvattur til að gera hið sama. Það gerði ég ekki,“ skrifar Ragnar og bætir við að rétt fyrir þing hafi viðvörunum til hans fjölgað og honum sagt að nota ætti ásökun um að hann hefði sýnt nemanda klám fyrir tuttugu árum sem átyllu.
„Í þessu máli öllu hef ég reynt að sýna siðferðisþrek og gera það sem er rétt. Það er rangt sem fram kemur að ég hafi fengið margítrekaðar ásakanir. Þetta er ein ásökun sem byggist á minningu drengs um klám í tölvu (sem lýst er og ekki var til á þessum tíma). Hún fékk sína leið í kerfinu. Að auki var ferill minn og búseta frá því ég hóf störf við kennslu fyrir meira en tuttugu árum rannsakaður af barnaverndaryfirvöldum. Ekkert misjafnt kom í ljós enda er ferill minn mjög farsæll, skrifar Ragnar.
mbl.is hefur ekki náð í Ragnar Þór í dag, en af orðum hans má ráða að hann hyggist ekki stíga til hliðar, sama hvernig þingfulltrúar greiða atkvæði um áskorun hóps kvenna til hans um að leita endurnýjaðs umboðs til formennsku í Kennarasambandinu.