Setja þurfi reglur og framfylgja þeim

mbl.is/Ófeigur

Kallað er eftir því í nýrri skýrslu frá GRECO, hópi ríkja gegn spillingu á vettvangi Evrópuráðsins, að íslensk stjórnvöld styrki stjórnkerfi Íslands til þess að draga úr hættunni á spillingu og óviðeigandi framgöngu í starfsemi stjórnvalda og löggæslustofnana.

Rifjað er upp í þeim efnum saga síðustu ára í kjölfar falls viðskiptabankanna þriggja haustið 2008, sem hafi leitt til þess að Íslendingar hafi ekki sama umburðarlyndi gagnvart spillingu og áður, og að tvær ríkisstjórnir hafi farið frá í kjölfar ásakana um spillingu.

Fram kemur að ríkisstjórnin hafi sett á laggirnar stýrihóp gegn spillingu árið 2014 en hins vegar sé sláandi í ljósi forsögunnar að ekki hafi verið gripið til neinna aðgerða eða heildarstefna verið mótuð af hópnum til þess að stuðla að ráðvendni innan ríkisstofnana.

Kallað er eftir því að settar verði reglur sem taki betur á þessum málum til að mynda varðandi gjafir frá þriðju aðilum sem vilji hafa áhrif á ákvarðanatöku stjórnvalda. Einnig varðandi það þegar fyrrverandi opinberir starfsmenn hefja störf hjá einkaaðilum.

Ekki sé nóg að setja aðeins reglur heldur þurfi að framfylgja þeim. Til að mynda þegar komi að hagsmunaárekstrum. Nefnt er í þessu sambandi einkum reglur um hagsmunaskráningu sem þurfi að bæta. Til að mynda þegar eignir eru ranglega skráðar á maka.

Ekki nóg að ráðherrar segi af sér

Fram kemur að jákvætt sé að slík mál hafi í sumum tilfellum leitt til afsagnar ráðherra á undanförnum árum, ólíkt því sem áður hafi verið, en hins vegar ættu slíkar afsagnir ekki að vera einu viðbrögðin við því þegar slík mál kæmi upp í stjórnsýslunni.

Kallað er eftir endurskoðun á því fyrirkomulagi þegar kemur að löggæslumálum að lögreglustjórar séu beint undir vald dómsmálaráðherra settir. Lagt er til að sett verði á fót sérstök stjórnsýsla innan löggæslustofnana til þess að taka á málum sem upp koma.

Ennfremur er lagt til að gripið verði til aðgerða til þess að koma í veg fyrir þöggun innan löggæslustofnana. Þar með talið viðeigandi vernd fyrir þá sem greina frá grunsemdum um að staðið sé rangt að málum. Til að mynda þegar kemur að hagsmunaárekstrum.

Stjórnvöld á Íslandi hafa svigrúm fram í september 2019 til þess að greina frá því til hvaða aðgerða hafi verið gripið til þess að koma til móts við athugasemdirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert