Vogur hættir að taka við ungmennum

Sjúkrahúsið Vogur er eitt af meðferðarheimilum SÁÁ.
Sjúkrahúsið Vogur er eitt af meðferðarheimilum SÁÁ.

Ákveðið hefur verið að sjúkrahúsið Vogur hætti að taka við ungmennum undir 18 ára, en það voru framkvæmdastjórn SÁÁ og meðferðarsvið sjúkrahússins sem tóku þessa ákvörðun. Verður ungmennameðferð á Vogi nú miðuð við 18 ára aldur.

Á þriðjudaginn var greint frá því að lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hefði til rann­sókn­ar kyn­ferðis­brot gegn sex­tán ára stúlku sem átti sér stað á sjúkra­hús­inu Vogi í lok fe­brú­ar­mánaðar. Grunur leikur um að stýlkan hafi verið beitt kynferðisofbeldi af eldri sjúklingi á Vogi, er stúlkan var þar í áfengis- og vímuefnameðferð. Sagði DV frá því að á upptökum úr öryggismyndavélum megi sjá hvar maður­inn var í sam­skipt­um við stúlk­una og að hann hafi farið með hana afsíðis.

Í tilkynningu frá SÁÁ kemur fram að augljós krafa um að ólögráða einstaklingar geti ekki verið í sama rými og fullorðnir í meðferð sé meira en Vogur geti orðið við að svo stöddu. Því sé ekki stætt á að halda áfram meðferð þeirra þar.

Þá kemur fram að Vogur muni í samráði við ráðuneytið sinna áfram þjónustu við fólk undir 18 ára þar til nýtt úrræði er í augsýn. Óskað hefur verið eftir leiðbeiningum heilbrigðisráðherra um hvernig þetta skref verður tekið þar sem brýnt er að ólögráða með vanda af fíkn fái áfram viðeigandi heilbrigðisþjónustu. Samráðsfundur er fyrirhugaður til að ákveða framtíðarfyrirkomulag og næstu skref.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert