Utanríkisráðuneytinu var ekki unnt að afhenda fjölskyldu Hauks Hilmarssonar öll gögn sem varða mál hans vegna þess að trúnaður þarf að ríkja geta ríkt um milliríkjasamskipti, auk þess sem sum gögn er tengjast málinu innihalda upplýsingar um einstaklinga sem geti ógnað öryggi þeirra. Þá gæti óheftur aðgangur að gögnunum spillt fyrir frekari samskiptum ráðuneytisins við þá aðila sem það hefur verið í sambandi við.
Um miðjan síðasta mánuð fóru aðstandendur Hauks fram á það ráðuneytið afhenti öll þau gögn um málið sem því væri heimilt að afhenda og þeirri beiðni svaraði ráðuneytið í vikunni.
Eva Hauksdóttir móðir Hauks skrifaði á vefsíðu sína eftir að hún fékk gögnin í hendur að engin leið væri að sjá hvort að í þeim gögnum sem ekki hefðu verið afhent væru ómerkileg smáatriði eða mikilvægar upplýsingar. Fram kom í skrifum hennar að hún hygðist leita til úrskurðarnefndar um upplýsingamál til að reyna að fá gögnin afhent í heild sinni.
Samkvæmt skriflegu svari Sveins H. Guðmarssonar, fjölmiðlafulltrúa ráðuneytisins, við fyrirspurn mbl.is var ekki unnt að afhenda gögn sem lúta að samstarfi við erlend ríki eða fjölþjóðastofnanir, þar sem slík samskipti verði að geta farið fram með þeim hætti að um þau geti ríkt trúnaður.
„Hins vegar innihalda sum gögnin upplýsingar um aðra einstaklinga sem eðlilegt er að leynt fari, meðal annars öryggis þeirra vegna. Aðgangi að þessum hluta gagnanna var því hafnað með vísan til 9. og 10. greinar upplýsingalaga,“ segir í svari ráðuneytisins.
Aðstandendum var bent á að heimilt er að bera synjun um beiðni um aðgang að gögnum undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál.
Í svarinu segir einnig að ráðuneytið hafi lagt allt kapp á að komast að afdrifum Hauks og að þess hafi verið sérstaklega gætt að halda fjölskyldu hans upplýstri um framgang málsins. Í samræmi við þetta hafi verið haft að leiðarljósi við afgreiðslu upplýsingabeiðnarinnar að veita eins miklar upplýsingar og frekast væri kostur.
„Vegna eðlis máls Hauks og ástandsins í norðurhluta Sýrlands hefur upplýsingaöflun þaðan reynst afar erfið. Hætta er á að óheftur aðgangur að ofangreindum gögnum geti spillt fyrir frekari samskiptum við þá sem ráðuneytið hefur átt í samskiptum við. Það myndi torvelda enn frekar alla viðleitni við að komast að afdrifum Hauks,“ segir í svarinu, en tekið er fram að aðstandendur Hauks hafi hins vegar verið upplýstir um efni og niðurstöðu þeirra samskipta eftir því sem kostur hafi verið.