Aldarfjórðungsgamall asparskógur í Sandlækjarmýri í Skeiða- og Gnúpverjahreppi batt yfir 20 tonn af koltvísýringi á hektara á ári. Þetta sýna rannsóknir sem gerðar voru frá október 2014 til október 2016.
Bjarki Þór Kjartansson, sérfræðingur á Mógilsá, greindi frá verkefninu Mýrviði og loftslagsáhrifum skógræktar á framræstu mýrlendi á fagráðstefnu skógræktar sem haldin var 11. og 12. apríl. Brynhildur Bjarnadóttir við Háskólann á Akureyri, Bjarni Diðrik Sigurðsson við Landbúnaðarháskóla Íslands auk Bjarka, sem vinnur hjá Skógræktinni, unnu að rannsókninni.
„Þessi mikla binding kom okkur á óvart,“ segir Bjarki í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.