Kennsla hefst við Lýðháskólinn á Flateyri næsta haust og síðar í dag verður farið að taka á móti umsóknum um nám á vefsvæði skólans lydflat.is. Stefnt er á kennslu á tveimur námsbrautum sem hvor um sig tekur við að hámarki 20 nemendum.
Helena Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Lýðháskólans á Flateyri og skólastjóri hans, segir að verkefnið hafi gengið vonum framar og ekki síst fyrir stuðning frá Ísafjarðarbæ og fleiri aðilum. Ísafjarðarbær veitir skólanum m.a. kennsluhúsnæðið endurgjaldslaust og niðurgreiðir þjónustu við skólann og nemendur hans. Einnig hefur sveitarfélagið ákveðið að veita skólanum beinan peningastyrk.
Sveitarfélögin á Vestfjörðum og landinu öllu hafa einnig verið mjög hjálpleg, Uppbyggingasjóður Vestfjarða, Vestfjarðarstofa, ráðherrar, stofnanir eins og Vinnumálastofnun og stéttarfélög og fleiri aðilar, segir Helena.
Eins og áður sagði eru námsbrautirnar tvær og til að byrja með verður kennslan að mestu á íslensku hvað svo sem síðar verður enda hafa útlendingar og innflytjendur verið meðal þeirra sem hafa sýnt verkefninu áhuga.
„Þetta þýðir að það er nauðsynlegt að vera með grunnþekkingu í íslensku til þess að sækja um nám við skólann í haust. Jafnframt þurfa umsækjendur að hafa náð átján ára aldri en ekkert aldurshámark er inn í skólann auk þess sem ekki eru gerðar neinar kröfur um fyrri menntun eða störf,“ segir Helena. Við leitum eftir nemendum sem eru áhugasamir, viljugir og tilbúnir til að taka þátt, deila ábyrgð og prófa eitthvað nýtt.
Með námsbrautinni Fjöllin, hafið og þú er lögð áhersla á að nýta þær auðlindir sem til eru í náttúru, menningu og samfélagi á Flateyri og í nærsveitum og með námskeiðum er lögð áhersla á færni, þekkingu og verkefni sem miða að því að nemendur verði færari í að ferðast um í náttúrunni, njóta hennar og nýta sér auðlindir hennar á öruggan og umhverfisvænan máta.
Að loknu námi munu nemendur hafa öðlast færni í að takast á við áskoranir og verkefni við ólíkar aðstæður, einir síns liðs og í hópum – færni sem nýtast mun í hvers kyns komandi verkefnum lífsins.
Með námsbrautinni Hugmyndir, heimurinn og þú er lögð áhersla á hugmyndavinnu og sköpun og útfærslu í hvers kyns formum, auk tjáningar og miðlunar. Með námskeiðum er lögð áhersla á ólík skapandi verkefni sem miða að því að nemendur öðlist færni í heimildaöflun, markvissri hugmyndavinnu og sköpun í ólíkum formum auk miðlunar til samfélagsins.
Að loknu námi mun einstaklingurinn hafa þroskast sem skapandi einstaklingur og safnað að sér færni, verkfærum og tækni sem nýtast mun í þarfri verkfærakistu fyrir komandi verkefni lífsins, segir í kynningarefni frá skólanum.
Helena segir að gert sé ráð fyrir því að nemendur taki stærstan hluta námsins á annarri hvorri brautinni en hægt sé að taka einstaka námskeið af hinni brautinni óski nemendur eftir því.
„Ein helsta áskorunin fyrir nemendur í lýðháskóla er að takast á við ólík verkefni og áskoranir sem þér hefur ekki endilega dottið í hug að sinna á eigin vegum, eitthvað sem þú hefur ekki reynt áður en þegar upp er staðið eru þau kannski miklu meira spennandi en þig hefði grunað,“ segir hún.
Til að mynda er hluti af náminu á umhverfisbrautinni að fara í smalamennsku og taka þátt í búskap og að fara á sjó. Eins munu nemendur fá kennslu í fjallamennsku og útvist og ef fólk hefur ekki prófað slíkt áður er þetta kjörið tækifæri til þess að láta slag standa, bætir Helena við.
Nýleg rannsókn sem unnin var fyrir lýðháskólasamtökin í Danmörku leiddi í ljós að fyrrverandi brottfallsnemendur sem fara í lýðháskóla eru mun líklegri en aðrir brottfallsnemendur til þess að halda áfram námi, bæði framhaldsskólanámi sem og háskólanámi, segir Helena.
Öll námskeið við Lýðháskólann á Flateyri eru kennd í 2ja vikna lotum og skólagjöldin eru 200 þúsund krónur fyrir hvora önn. Innifalið í skólagjöldum er morgun- og hádegismatur alla virka skóladaga, námsefni og ferðir og verkefni sem tengjast vinnu og verkefnum við skólann. Ekki er um hefðbundin próf og kennsluáætlanir að ræða og segir Helena það geti hentað mörgum vel að geta reynt ólíka hluti án herslu á hefðbundið námsmat eða fræðilegar kennisetningar.
Aðeins hluti af námi við Lýðháskólann fer fram innandyra, í hefðbundinni kennslustofu. „Við verðum á mismunandi stöðum og oft úti, í öllum veðrum og stundum við líkamlega krefjandi aðstæður.
Við slíkar aðstæður er nauðsynlegt að vera hreyfanlegur og til í ýmislegt. Það er mikilvægt að nemendur séu opnir fyrir nýjum upplifunum og því að reyna á sig við aðstæður sem þeir hefur ekki verið í áður. Að þora að stökkva – það er viðhorfið sem gildir,“ segir í tilkynningu frá stjórnendum skólans.
Gert er ráð fyrir að nemendur við Lýðháskólann á Flateyri muni búa á nokkurs konar heimavist, þar sem þeir deila saman herbergi í smáhýsum. Grunnhugmyndin er að fólk búi saman í herbergjum en ef fólki hugnast það ekki þá verðum við fólki innan handar við að leigja sér húsnæði á Flateyri en nokkurt framboð er yfir vetrartímann að ólíku leiguhúsnæði á Flateyri. Nemendur og starfsmenn búa því saman og munu einnig deila ábyrgð á þrifum og eldamennsku. Í raun verður þetta lítið samfélag inni í öðru samfélagi, Flateyri, segir Helena í samtali við mbl.is.
Að sögn Helenu er skólinn í eigu félagasamtaka sem voru stofnuð í kringum skólann. Hann er rekinn af félaginu en stjórn þess tekur ákvarðanir varðandi reksturinn í samvinnu við félagsmenn.
Varðandi starfsemi skólans þá er lögð mikil áhersla á samvinnu allra sem koma að skólanum og er horft til þess við val á nemendum inn í skólann. Að þeir séu reiðubúnir til náinnar sambúðar og samvinnu við aðra nemendur, kennara og íbúa Flateyrar.
Helena segir að verkefnið leggist vel í hana og hún verður eins og áður sagði skólastjóri og búsett á Flateyri.
Stefnuskrá skólans hefur verið sett fram en siðareglur er eitthvað sem við munum fyrirfram ekki meitla í stein heldur setja okkur, sem samfélag, í upphafi skólaárs. Hvernig viljum við hegða okkur, gagnvart hvert öðru og samfélaginu í heild,“ segir Helena sem flutti til Flateyrar fyrir nokkrum mánuðum og er alsæl með dvölina fyrir vestan og þær móttökur sem hún og skólinn hafa fengið hjá heimafólki.