„Gleðin úr augunum er farin“

Tjaldsjúkrahúsið átti að vera tímabundin lausn en því verður ekki …
Tjaldsjúkrahúsið átti að vera tímabundin lausn en því verður ekki lokað af mannúðarástæðum.

„Maður finn­ur þakk­lætið en líka tóm­leik­ann hjá mörg­um. Það er eins og allt sé farið. Gleðin úr aug­un­um er far­in. En það er hægt að hjálpa þessu fólki og það er það sem við erum að gera. Við hjá Rauða kross­in­um erum að bjarga manns­líf­um á hverj­um ein­asta degi. Við finn­um hvað við erum að gera rosa­lega góða hluti þó um­heim­ur­inn geri sér ekki grein fyr­ir því,“ seg­ir Ruth Sig­urðardótt­ir skurðhjúkr­un­ar­fræðing­ur og sendi­full­trúi Rauða kross­ins sem stödd er í flótta­manna­búðum í ná­grenni borg­ar­inn­ar Cox‘s Baz­ar í Bangla­dess þar sem hátt í millj­ón rohingj­ar haf­ast við, að stærst­um hluta kon­ur og börn.

Rohingj­ar eru minni­hluta­hóp­ur múslima sem sætt hef­ur of­sókn­um í heimalandi sínu, Búrma (Mjan­mar) og hafa hundruð þúsund flúið yfir landa­mær­in til Bangla­dess síðustu mánuði.

Sinna öll­um erfiðustu verk­efn­un­um

Ruth starfar öllu jafna á skurðstofu á Land­spít­al­an­um Foss­vogi en hún dvel­ur nú í Bangla­dess í um mánaðar­tíma þar sem hún sinn­ir bráðveik­um og slösuðum á tjald­sjúkra­hús­inu. Það var stund milli stríða hjá henni þegar blaðamaður náði tali af henni. Það hafa verið vand­ræði með raf­magn á svæðinu síðustu daga þannig það gekk illa að ná sam­bandi við hana, en það hafðist á end­an­um.

„Ég sé um skurðstof­una hér með skurðlækni og öðrum skurðhjúkr­un­ar­fræðingi, sem er japönsk. Við erum hérna af öll­um þjóðern­um að vinna sam­an. Þessi spít­ali sem Rauði kross­inn er að reka núna er slysa- og bráðasp­ítali. Hann er einn af mjög fáum spít­öl­um sem eru hérna. Þeir eru nokkr­ir hér í kring en við erum með opið all­an sól­ar­hring­inn. Við sinn­um slysa- og bráðaþjón­ustu, en við erum ekki að taka inn fólk sem er lang­veikt eða með krón­íska sjúk­dóma.  Að mestu leyti erum við með skurðsjúk­linga og svaka­lega mikið af börn­um.“

Þeir sem leita til Ruthar og kollega hennar eru í …
Þeir sem leita til Rut­h­ar og koll­ega henn­ar eru í flest­um til­fell­um bráðveik­ir og tölu­vert mikið slasaðir.

Ruth seg­ir það kær­komið fyr­ir fólkið í búðum að fá þá aðstoð sem boðið er upp á á sjúkra­hús­inu, jafn­vel þó marg­ir komi um lang­an veg og þurfi að bíða klukku­tím­um sam­an. Slasaðir og mikið veik­ur fá að minnsta kosti úr­lausn sinna mála. Fyr­ir það er fólk þakk­látt.

Lækn­ar án landa­mæra starf­rækja einnig heilsu­gæslu­stöðvar inni í búðunum en þangað get­ur fólk leitað með smá­vægi­leg veik­indi og minni­hátt­ar slys. „Við tök­um allt þetta erfiðasta. Stóru aðgerðirn­ar og sinn­um þeim sem eru í mestri lífs­hætti. Þannig þetta er svaka mikið verk­efni,“ seg­ir Ruth.

Millj­ón manns og eng­in hrein­lætisaðstaða

Aðstæðurn­ar sem hún starfar við eru ansi frá­brugðnar þeim sem hún á að venj­ast á Land­spít­al­an­um. „Skurðstof­an er í stóru tjaldi en það er mjög lít­il kæl­ing hjá okk­ur. Við erum bara með vift­ur. Það er yf­ir­leitt svona 36 til 37 stiga hiti á dag­inn og ofsa­lega mik­ill raki úti. Þannig við vinn­um oft við erfiðar aðstæður, en okk­ur geng­ur það nokkuð vel. Við höf­um til­tölu­lega góð tæki sem Rauði kross­inn hef­ur út­vegað okk­ur.“

Sjúkra­húsið er staðsett inni í miðjum búðunum og þjón­ar gríðarlega stóru svæði. Ruth gekk aðeins um búðirn­ar sjálf­ar morg­un­inn áður en við töluðum sam­an og hún seg­ir ekki hægt að lýsa aðstæðum með orðum. „Það koma hérna sam­an hátt í millj­ón manns en það er eng­in aðstaða til hrein­læt­is. Það hef­ur verið borað fyr­ir vatn­brunn­um, en sal­erni og sorp­hreins­un er varla til staðar. Maður trú­ir því ekki að þetta þurfi að vera svona. En því miður er þetta svona,“ seg­ir Ruth. Það er ljóst að upp­lif­un­in hef­ur tekið á hana.

Mörg börn fá bót meina sinna hjá Ruth, en þau …
Mörg börn fá bót meina sinna hjá Ruth, en þau eru stór hluti þeirra sem búa í búðunum.

Búðirn­ar eru staðsett­ar um sex kíló­metra frá landa­mær­um Búrma og hún seg­ir stöðugan straum af fólki þar yfir til Bangla­dess. „Það ligg­ur veg­ur al­veg í gegn, frá landa­mær­un­um og inn í borg­ina Cox‘s Baz­ar, sem er Bangla­dess borg hér rétt hjá, en þangað sækj­um við mikið okk­ar birgðir. Það eru alltaf lög­reglu­menn á veg­in­um sem stoppa flótta­fólkið. Það fer ekk­ert lengra. Fólkið er bara í þess­um skelfi­legu búðum sem eru hérna.“

Ruth seg­ir Rauða kross­inn vinna mjög þarft verk­efni á svæðinu, en unnið er í sam­starfi við Rauða kross­inn í Bangla­dess og yf­ir­völd þar í landi. Ekk­ert er gert nema með leyfi þeirra. „Við erum að reyna að fá lækna­menntað fólk frá Bangla­dess til að vinna með okk­ur og það geng­ur þokka­lega. Mætti reynd­ar ganga bet­ur. Von­andi mun það ganga bet­ur í framtíðinni því þeir munu koma til með að sinna þess­um verk­efn­um.“

Búa sig und­ir kóleru og mikið mann­fall

Tjald­sjúkra­húsið sem Ruth starfar á átti átti bara að vera starf­andi í nokkra mánuði, líkt og venj­an er. „Oft­ast standa svona sjúkra­hús í þrjá mánuði en þetta hef­ur staðið í sex mánuði og verður haldið opnu áfram því þörf­in er svo mik­il. Það er ekki hægt að loka, ein­fald­lega af mannúðarástæðum. En tjöld­in okk­ar eru svo­lítið far­in að mygla í rak­an­um og trosna í sól­inni, þannig það byrjað á því að skipta þeim út.“

Öll börn sem fæðast á tjaldsjúkrahúsinu fá heimaprjónaðar húfur og …
Öll börn sem fæðast á tjald­sjúkra­hús­inu fá heima­prjónaðar húf­ur og sokka frá Rauða kross­in­um.

Nú er hins veg­ar erfitt tíma­bil að ganga í garð, mons­ún-tíma­bilið, en því fylg­ir mikið vatns­veður. „Tíma­bilið stend­ur frá því í lok apríl og al­veg fram á sum­arið. Þá verða gríðarlega mikl­ar rign­ing­ar hérna. Þá geta einnig komið stór­ir felli­bylj­ir með. Það eru all­ir hjá Rauða kross­in­um og hérna í kring með mikl­ar áhyggj­ur af því hvernig aðstæður fyr­ir flótta­menn­ina muni verða. Að öll­um lík­ind­um um kólera koma upp. Við erum að reyna að gera ráðstaf­an­ir og und­ir­búa okk­ur und­ir það. Því miður verður ör­ugg­lega mikið mann­fall þegar mons­ún-rign­ing­arn­ar hefjast. Þetta verður svaka­lega erfitt tíma­bil,“ seg­ir Ruth.

Flótta­manna­búðirn­ar eru byggðar í hæðum og döl­um og und­ir­lagið er mold. Þegar svæðið blotn­ar má bú­ast við aur­skriðum og flóðum.

Erfitt að sjá börn al­ast upp í búðunum

Erfiðast þykir Ruth að horfa upp á börn­in í búðunum. „Það er svo mikið af börn­um hérna. Það er þyngra en tár­um taki að sjá öll þessi börn al­ast upp í þess­um hræðilegu flótta­manna­búðum. Maður skil­ur ekki hvernig þetta er hægt,“ seg­ir hún, en það gladdi hana mikið þegar hún gekk um búðirn­ar morg­un­inn um morg­un­inn, að sjá að það var búið að reisa skóla með steyptu gólfi og bambus­veggj­um. Skól­inn var ekki þarna þegar hún gekk um svæðið fyr­ir tveim­ur vik­um.

„Ég fór inn og fékk að tala við kenn­ar­ann og krakk­ana. Það var rosa­lega ánægju­legt að sjá hvað þau voru glöð. Sjá hvað er verið að reyna að gera. Það er til dæm­is verið að kenna þeim staf­ina, en það er auðvitað bara lít­ill hóp­ur sem kemst fyr­ir. Það er ákveðin upp­bygg­ing í gangi og Unicef er þarna með mjög gott starf. Ég kíkti líka á það.“

Grípa í Ruth og brosa

Ruth seg­ir vissu­lega erfitt vinna við þess­ar aðstæður, en hún vissi nokk­urn veg­inn við hverju mátti bú­ast, enda hef­ur hún áður farið út sem sendi­full­trúi Rauða kross­ins. Þá starfaði hún á Haíti í kjöl­farið af stór­um jarðskjálfta sem reið þar yfir árið 2010.

Eitt af erfiðum verkefnunum á sjúkrahúsinu er að taka á …
Eitt af erfiðum verk­efn­un­um á sjúkra­hús­inu er að taka á móti börn­um þar sem vand­kvæði koma upp í fæðing­unni.

Dvöl­in í Bangla­dess hef­ur þó tekið meira á hana. „Mér per­sónu­lega finnst samt erfiðara að vera hér. Mér finnst fólkið eiga svo erfitt hérna. Það er svo sorg­mætt og vannært. Börn­in sem við erum að taka á móti í keis­ara eru oft mjög vannærð. Þetta fólk hef­ur farið um svo lang­an veg og er oft svo illa farið. Mér finnst þetta því erfið sendi­för og hún tek­ur á. Það er samt frá­bært starfslið hérna og við erum í þessu sam­an. Við töl­um mikið sam­an og höf­um góðan stuðning af hvert öðru. Maður verður svo glaður þegar maður get­ur gert eitt­hvað gott. Sum­ir koma hingað mjög sorg­mædd­ir og mikið veik­ir og svo fara þeir að jafna sig. Ég er búin að vera hérna í þrjár vik­ur og það eru marg­ir sem grípa í mig og brosa því þeir sjá að þeir eru að lækn­ast. Það er sér­stakt að upp­lifa þetta, sorg­legt en líka ánægju­legt.“

Eitt af erfiðu verk­efn­un­um sem sinnt er á tjald­sjúkra­hús­inu er að taka móti börn­um þar sem ein­hver vand­kvæði hafa komið upp í fæðing­unni. Öll börn­in sem fæðast í tjald­inu fá svo litla gjöf frá Rauða kross­in­um. „Þau fá litl­ar húf­ur og sokka, heima­prjónað af Rauða kross kon­um. Mæðurn­ar verða svo glaðar. Það þarf ekki meira til. Ég hvet alla til að gera eitt­hvað, þó það sé lítið. Það er stórt hér. Þegar við tök­um hönd­um sam­an þá skil­ar það sér.“

Búðirn­ar stækka hratt og þörf­in eykst

Hún seg­ir mik­il­vægt fyr­ir um­heim­inn að gefa ástand­inu við landa­mæri Bangla­dess og Búrma gaum. „Það er mjög þarft verk­efni að hjálpa öll­um þess­um hundruðum þúsunda sem hvergi eiga heima og hafa ekki neitt. Í fe­brú­ar var talið að um 700 þúsund manns væru í búðunum, en nú er tal­an lík­lega kom­in upp í 800 til 900 þúsund.“ Það er því ljóst að búðirn­ar stækka mjög hratt og þörf­in fyr­ir aðstoð eykst dag frá degi.

Ruth sér um skurðstofuna ásamt skurðlækni og öðrum skurðhjúkrunarfræðingi.
Ruth sér um skurðstof­una ásamt skurðlækni og öðrum skurðhjúkr­un­ar­fræðingi.

„Þjóðfé­lagið í Bangla­dess er að reyna að búa til skipu­lag fyr­ir þetta fólk, en eins og gef­ur að skilja þá er mjög erfitt fyr­ir eina þjóð að fá svona marga inn í landið á skömm­um tíma. Það er eig­in­lega ekki sann­gjarnt að að þeir þurfti að taka á móti svona mörg­um án stuðnings,“ seg­ir Ruth. Hún er að von­um stolt af sín­um fram­lagi, sem og koll­ega sinna. Hún er nítj­ándi sendi­full­trú­inn sem Rauði kross Íslands send­ir á svæðið frá því tjald­sjúkra­húsið var opnað í sept­em­ber. „Ég er rosa­lega stolt af því hvað Rauði kross­inn er að vinna gott og óeig­ingjarnt starf hérna. Líka þeir sem eru héðan. Þetta er allt fólk sem legg­ur sig mikið fram.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka