Khattab al-Mohammad segir að loftárásir Bandaríkjanna, Frakka og Breta séu ekkert annað en vitleysa og sé ekki ætlað að koma sýrlensku þjóðinni til aðstoðar. Khattab býr á Akureyri ásamt fjölskyldu sinni en þau komu hingað til lands í janúar 2016 úr flóttamannabúðum í Líbanon en hann flúði Sýrland árið 2012.
Líkt og fram hefur komið gerðu ríkin þrjú árásir á birgðastöðvar sýrlenska hersins í gær í kjölfar efnavopnaárásar sýrlenska stjórnvalda á íbúa bæjarins Douma fyrir viku.
„Ég held að þetta sé enn ein vitleysan sem kemur frá Donald Trump, forseta Bandaríkjanna,“ segir Khattab í samtali við mbl.is.
„Allur heimurinn hefur fylgst aðgerðarlaus með sýrlensku þjóðinni slátrað. Þar sem heimilum fólks eru jöfnuð við jörðu. Hvernig fólk er sent á milli staða og jafnvel efnavopnum beitt á íbúa á svæðum þar sem uppreisnarmenn eru án þess að gera nokkuð til þess að hjálpa íbúum Sýrlands,“ segirKhattab er einn þeirra milljóna Sýrlendinga sem eru landflótta eftir sjö ára stríð í landinu.
„Með þessu er verið að segja við Bashar al-Assad, forseta Sýrlands, að hann megi ekki nota efnavopna á íbúa landsins en hann megi beita öðrum vopnum á þjóð sína, varpa sprengjum og hverju sem er svo lengi sem hann notar ekki efnavopn,“ segir Khattab, en um hálf milljón Sýrlendinga, hið minnsta, hefur verið drepin á þeim árum sem liðin eru frá því að almenningur í Sýrlandi fór að mótmæla harðstjórn landsins.
Að sögnKhattab þá er því yfirleitt þannig farið þegar nú handsamar glæpamann þá er hann ákærður og færður fyrir dómara. Ekki vopnið sem hann beitti við að fremja glæpinn. Þeir segja tilganginn með árásunum að eyða geymslum sem hýsa efnavopn en glæpamaðurinn sjálfur situr sem fastast. Stríðsglæpamaðurinn gengur laus,“ segir Khattab.
Hann segist óttast hvað bíði íbúa Idlib-héraðs og bendir á hótanir háttsetts íransks embættismanns í Damaskus í síðustu viku um að næst sé það Idlib-hérað sem ráðist verði til atlögu.
„Eins og venjulega mun öryggisráð Sameinuðu þjóðanna koma saman eftir að árásirnar hefjast þar. Síðan beita Rússar neitunarvaldi sínu og þar við situr. Þetta höfum við séð ítrekað og áfram verða mannréttindi íbúa Sýrlands og lýðræðið fótum troðið og heimurinn stendur hjá. Stjórnmálamenn út um allan heim láta þetta afskiptalaust og gera ekkert til þess að styðja við sýrlensku þjóðina sem verið er að slátra.“