Sektir hækkaðar 1. maí

Bílar á ferðinni í Reykjavík.
Bílar á ferðinni í Reykjavík. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur skrifað undir nýja reglugerð um sektir og önnur viðurlög fyrir umferðarlagabrot sem tekur gildi 1. maí.

„Sektir við umferðarlagabrotum hafa ekki hækkað í rúman áratug og er talin ástæða til að sektarupphæðir fylgi þróun verðlags.

Nauðsynlegt er að fjárhæð sekta endurspegli alvarleika umferðarlagabrota og þá hættu sem þau skapa. Sektir við umferðarlagabrotum eru til þess fallnar að veita ökumönnum aukið aðhald og stuðla þannig að auknu umferðaröryggi,“ segir í tilkynningu frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu.

Hækkun sekta verður í flestum tilvikum í samræmi við þróun verðlags, þó þannig að lægsta sektarfjárhæð frá 1. maí verður 20.000 krónur en var áður 5.000 krónur. 

Eina undantekningin er að sekt fyrir að hafa ekki ökuskírteini meðferðis verður 10.000 krónur. Sekt fyrir að nota farsíma við stýrið án handfrjáls búnaðar verður 40.000 krónur í stað 5.000 króna.

Ástæða þeirrar hækkunar er meðal annars aukin tíðni slíkra brota og sú hætta sem er samfara notkun farsíma við akstur.

Drög að reglugerðinni voru birt á vef ráðuneytisins til umsagnar síðasta sumar. Átta umsagnir bárust, meðal annars frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Samgöngustofu, Vátryggingafélagi Íslands, Samgöngufélaginu, Samtökum atvinnulífsins og tveimur sýslumannsembættum.

„Í heildina voru umsagnir um reglugerðardrögin jákvæðar að því varðar hækkun sekta. Í athugasemdum m.a. frá Samgöngustofu og sýslumanninum á Norðurlandi vestra voru gerðar tillögur að breyttu orðalagi einstakra ákvæða. Tillit var tekið til þeirra athugasemda að verulegu leyti,“ segir í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert