Hlýtt og þurrt veður í borginni gerði það meðal annars að verkum að styrkur svifryks var hár í dag samkvæmt mælingum í mælistöðvum við Grensásveg, Hringbraut og Eiríksgötu í Reykjavík.
Hæstur styrkur svifryks mældist við Grensásveg, en hálftímagildi svifryks var 366,3 míkrógrömm á rúmmetra um kvöldmatarleyti. Sólarhringsheilsuverndarmörkin fyrir svifryk eru 50 míkrógrömm á rúmmetra og mældist styrkur svifryks fyrir ofan þau mörk á öllum fjórum mælistöðvum borgarinnar í dag.
Í tilkynningu sem Reykjavíkurborg sendi frá sér á dögunum eru ökumenn hvattir til að skipta út nagladekkjum sem fyrst til að minnka líkur á svifryksmengun. Frá og með gærdeginum eru nagladekk ekki leyfileg í borginni.
Hér má fylgjast með loftgæðum í borginni.