Umboðsmenn barna á Norðurlöndunum telja umskurð brjóta gegn réttindum barna, þetta sagði Salvör Nordal, umboðsmaður barna, á ráðstefnu um umskurð drengja í Norræna húsinu í dag. „Umskurður sem er framkvæmdur án læknisfræðilegrar nauðsynjar á einstaklingi sem ekki getur veitt samþykki sitt brýtur á rétti hans, ekki hvað síst vegna þess að aðgerðin er óafturkræf og sársaukafull,“ sagði Salvör og bætti við: „Það eru engar heilsufarsástæður fyrir umskurði barna á Norðurlöndunum.“
Viðhorf umboðsmanna barna sé að umskurður eigi að vera leyfilegur þegar viðkomandi einstaklingur getur veitt samþykki fyrir aðgerðinni.
Samráðsvettvangur trúfélaga og lífsskoðunarfélaga hélt í dag ráðstefnu um umdeilt umskurðarfrumvarp Silju Daggar Gunnarsdóttur, þingmanns Framsóknarflokksins.
Sagði Salvör umskurð drengja brjóta í bága við Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna, varðandi réttindi barna til að tjá skoðanir sínar. Þar sé kveðið á um að verja börn gegn menningarhefðum sem kunni að hafa neikvæð áhrif á heilsu þeirra.
„Árið 2013 hvöttu Sameinuðu þjóðirnar allar þjóðir til að láta af siðum sem væru hættulegir heilsu barna,“ sagði Salvör og kvað hagsmuni barnsins alltaf eiga að vera í forsæti.
Sín persónulega skoðun sé þó að bann við umskurði eigi ekki heima í refsilöggjöfinni, heldur í almennri heilbrigðislöggjöf og eigi þar með líka að ná til intersex-einstaklinga. „Þetta er flókið mál, við erum meðvituð um það, en við teljum frumvarpið veita tækifæri til að ræða málið.“
Jonathan Arkush, forseti samtaka gyðinga í Bretlandi, sagði Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna taka skýrt fram rétt barna til trúfrelsis og rétt þeirra til að vera alin upp í sínu eigin trúarsamfélagi.
„Þó að Barnasáttmálinn sé fínkembdur, þá er þar hvergi einu sinni gefið í skyn bann við umskurði,“ sagði Arkush og kvað slíkt væntanlega hafa verið gert ef umskurði fylgdi raunveruleg heilsufarshætta.
„Það truflar mig líka að gefið sé í skyn að umskurðir séu ekki framkvæmdir á spítala heldur af trúarleiðtogum og að þess vegna sé hætta á sýkingu,“ sagði hann og kvað um hreina fordóma að ræða. „Það er mikið eftirlit með umskurði og aðgerðin er ekki framkvæmd af trúarleiðtogum heldur faglærðum einstaklingum, þannig að í vestrænu umhverfi er hættan á vandkvæðum hverfandi lítil.“
Sagði Arkush umskurð drengja alltaf vera val foreldra barnsins, rétt eins og að leyfa barni að fá göt í eyrun. „Það er hættulegra að fara með barn í skíðafrí en að láta umskera það,“ bætti hann við.
Þá kvaðst hann gefa lítið fyrir rök þeirra sem vilja að drengir bíði fullorðinsáranna með að láta umskera sig. „Ef ég hefði verið alinn upp af frjálslyndum foreldrum sem vildu að ég tæki þessa ákvörðun 16 ára, þá hefði ég sagt þeim að ég væri þeim reiður fyrir að láta mig bíða. Ég hefði átt rétt á að alast upp í trúarsamfélagi minnar trúar, en þess í stað hefðu þau valið að láta mig vera öðruvísi en aðra í 16 ár. Þess utan fylgir aðgerðinni orðið aukin hætta á þeim aldri, þannig að þetta er ekki réttlátt val,“ sagði Arkush.