Eigendur tölvubúnaðar sem stolið var úr gagnaveri á Suðurnesjum fyrr á árinu heita áfram 6 milljónum íslenskra króna í fundarlaun til þess sem getur veitt áreiðanlegar upplýsingar um hvar búnaðinn er að finna.
Frestur til að koma ábendingum um búnaðinn hefur verið framlengdur um tvær vikur, eða til 2. maí. Þeir sem búa yfir upplýsingum um málið eru hvattir til að hafa samband við lögregluna á Suðurnesjum í síma 832-0253.
Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjóri á Suðurnesjum, sagði í samtali við mbl.is fyrir helgi að lögreglan sé í raun engu nær um staðsetningu búnaðarins, sem er metinn á um 200 milljónir króna.
Einn maður er í gæsluvarðhaldi vegna málsins. Gæsluvarðhald yfir honum var framlengt í gær, en hann strauk úr fangelsinu að Sogni í nótt.
Frétt mbl.is: Staðfest að strokufanginn sé farinn úr landi
Í tilkynningu kemur fram að fundarlaunin verða greidd til þess sem lögreglyfirvöld staðfesta að hafi fyrstur komið á framfæri ábendingu um hvar búnaðinn er að finna. Gætt verður fyllsta trúnaðar við þá sem veita lögreglu upplýsingar um málið. Lögfræðistofa sem fer með málið fyrir hönd eigenda búnaðarins sér um að annast greiðslu fundarlauna.