Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að ekkert hafi bent til þess að Sindri Þór Stefánsson væri líklegur til að strjúka úr fangelsinu að Sogni.
„Í opnum fangelsum vistum við einstaklinga sem við treystum til þess að afplána við slíkar aðstæður, það er einstaklinga sem við teljum ekki hættulega umhverfinu í kringum sig,“ sagði Páll í viðtali í Kastljósi í kvöld.
Sindri Þór, sem hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan 2. febrúar vegna gruns um aðild að stórfelldum þjófnaði úr gagnaveri, strauk frá fangelsinu að Sogni í nótt. Hann fór úr landi klukkan 07:34 í morgun með vél Icelandair til Svíþjóðar.
Frétt mbl.is: Strokufanginn farinn til Svíþjóðar
„Það var ekkert sem benti til þess að það væri strokhætta af þessum manni,“ sagði Páll. Hann benti jafnframt á að samsetning fangahópsins á Íslandi geri það að verkum að fangelsismálayfirvöld þurfi að forgangsraða inn í fangelsið. „Það er harðasti kjarni manna sem afplánar fangelsisrefsingar í fangelsum.“ Þá sagði hann það vera 100% frelsisskerðingu að vera vistaður í opnu fangelsi.
Sindri Þór strauk úr fangelsinu að Sogni klukkan eitt í nótt, en lögreglu var ekki tilkynnt um það fyrr en klukkan átta í morgun.
Páll sagði að fyrirkomulagið í opnum fangelsum sé þannig að þar sé borið meira traust til manna. Spurður hvort Sindri Þór hafi getað haft samband við hvern sem er sagði Páll að hann hafi, eins og allir aðrir fangar sem ekki sæta einangrun vegna rannsóknarhagsmuna, getað hringt í þann sem hann sýnist. „Svoleiðis er það og það á að vera svoleiðis.“
Á eftirlitsmyndavélum að Sogni má sjá Sindra Þór fara út um glugga á herbergi sínu, en Páll segir að hægt sé að greina það með góðum vilja. Hann fullyrðir að fangaverðirnir hafi sinnt störfum sínum síðustu nótt. „Þeir voru að gera það sem þeir gera venjulega, að fylgjast með húsinu.“
Páll viðurkennir að mistök hafi mögulega átt sér stað. „Maður getur ekki 100% lesið huga allra sem eru í fangelsum ríkisins. Við getum vissulega metið ýmislegt en það er ekki alltaf hægt að reikna út gjörðir manna,“ sagði Páll.
Þá segir hann málið afar slæmt og vonar hann að það hafi ekki þær afleiðingar að föngum fækki í opnum fangelsum því það telur hann vera skref aftur á bak.
„Það kann að vera að við þurfum að bæta við gæsluna, þá þurfum við að fjölga mönnum, kannski gerum við það. Við erum að vinna þetta eins vel og getum. Þetta mál er vont, ég er ekki ánægður með það,“ sagði Páll.