Hvalur hf. vinnur að rannsóknum á möguleikum þess að nýta langreyðarkjöt í járnríkt fæðubótarefni fyrir fólk sem þjáist af blóðleysi. Einnig gelatín úr beinum og hvalspiki til lækninga og í matvæli.
Þetta er meðal forsendna þess að Hvalur hefur ákveðið að hefja hvalveiðar á ný í sumar, eftir tveggja ára hlé. Veiðarnar hefjast um 10. júní.
Hvalur hætti hvalveiðum árið 2016 vegna erfiðleika í útflutningi hvalaafurða til Japans. Snéru þeir meðal annars að úreltum aðferðum við efnagreiningar sem gáfu misvísandi niðurstöður. Kristján Loftsson framkvæmdastjóri gerir sér vonir um að dregið verði úr þessum hindrunum. Allar afurðirnar hafa verið frystar og megnið flutt til Japans. Hvallausu árin tvö hafa verið notuð til að kanna möguleika á að vinna aðrar afurðir, að því er fram kemur í umfjöllun um fyrirhugaðar veiðar í Morgunblaðinu í dag.