Þingfundur á Þingvöllum í sumar

Þingvellir.
Þingvellir. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Tveir hápunktar verða á afmælisári fullveldis Íslands: Fullveldisdagurinn, 1. desember, verður haldinn hátíðlegur um allt land í samstarfi við háskóla, sveitarfélög og fólkið í landinu. Einnig mun ríkisstjórnin standa fyrir dagskrá í tilefni dagsins. Þann 18. júlí verður haldinn hátíðarfundur Alþingis á Þingvöllum en þann dag var samningum um fullveldi Íslands lokið með undirritun sambandslaganna sem síðan tóku gildi 1. desember 1918.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu skrifstofu Alþingis. Þar segir að þingfundurinn sé hugsaður eins og fundir á Þingvöllum hafi verið á hátíðar- og minningarstundum í sögu þjóðarinnar. Fundurinn verði undir berum himni á sérstaklega byggðum þingpalli og fyrirfram skipulagður þar sem ætlunin sé að samþykkja ályktun sem full samstaða er um.

„Stefnt er að því að hafa alla umgjörð þingfundarins þennan dag hóflega og látlausa enda ekki um að ræða þjóðhátíð í hefðbundnum skilningi. Bein sjónvarpsútsending verður frá þingfundinum og öllum landsmönnum gefst þannig kostur á að fylgjast með þótt allir séu að sjálfsögðu velkomnir á staðinn,“ segir ennfremur í tilkynningunni.

Við undirbúning þingfundarins í sumar hefur skrifstofa Alþingis átt mjög gott samstarf við fjölmarga aðila, eins og Framkvæmdasýslu ríkisins, embætti ríkislögreglustjóra, Vegagerðina, þjóðgarðsvörðinn á Þingvöllum, Þingvallanefnd og Ríkisútvarpið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert