Heildarferðakostnaður starfsmanna Alþingis árið 2017 var tæpar 15 milljónir króna.
Þetta kemur fram í svari Steingríms J. Sigfússonar, forseta Alþingis, við fyrirspurn Þorsteins Sæmundssonar, þingmanns Miðflokksins.
Heildarferðakostnaðurinn var 14.759.926 krónur.
Heildarkostnaður skrifstofu Alþingis við akstur starfsmanna var 681.912 krónur fyrir árið 2017. Hæsta greiðslan til einstaks starfsmanns var 462.000 krónur fyrir sama ár.
Ekki voru greiddir dagpeningar á ferðum innan lands en 21 starfsmaður Alþingis fékk greidda dagpeninga árið 2017 á ferðum erlendis, alls 7.007.248 krónur.
Hæsta greiðsla dagpeninga til einstaka starfsmanns Alþingis var 1.108.681 krónur, að því er kemur fram í svarinu.
Símakostnaður var greiddur í lok árs 2017 fyrir 77 starfsmenn. Heildarsímakostnaður ársins var 5.251.637 krónur. Hæsta einstaka greiðsla til starfsmanns skrifstofu Alþingis var 224.950 krónur á árinu 2017.
Alþingi greiddi fatapeninga fyrir samtals 72.000 krónur. á árinu. Útlagður kostnaður fyrir vinnuföt var 2.110.268 krónur.
Meðalheildarlaun starfsmanna skrifstofu Alþingis voru 9.055.103 krónur fyrir árið 2017. Hæstu heildarlaun einstaks starfsmanns fyrir árið voru 22.214.115 krónur.
Þorsteinn spurði einnig til hvaða starfsmanna Alþingis og stofnana þess hafi ríkið lagt til bifreið á síðasta ári og hvert heildarverðmæði bifreiðanna hafi verið. Svarið var þannig að starfsmenn Alþingis hafi ekki afnot af bifreiðum á vegum Alþingis.