Hefði átt að vera frjáls ferða sinna

Sindri Þór á Keflavíkurflugvelli skömmu fyrir flugið til Svíþjóðar.
Sindri Þór á Keflavíkurflugvelli skömmu fyrir flugið til Svíþjóðar. Ljósmynd/Lögreglan á Suðurnesjum

Sindri Þór Stefánsson, sem strauk úr fangelsinu að Sogni á þriðjudag, hefði átt að vera frjáls ferða sinn eftir að gæsluvarðhaldsúrskurður yfir honum rann út vegna þess að hann var ekki handtekinn að nýju.

Þetta er mat Kristínar Benediktsdóttur, dósents í réttarfari við Háskóla Íslands. Rætt var við Kristínu í kvöldfréttum Rúv. Hún segir það skýrt í stjórnarskrá að ekki megi svipta neinn frelsi nema með úrskurði dómara.

Lögreglan geti hins vegar handtekið menn að nýju eftir að gæsluvarðhaldsúrskurður rennur út og haldið þeim í sólarhring í viðbót á meðan dómari fer yfir málið.

Gæsluvarðhald yfir Sindra Þór rann út síðdegis á mánudag. Dómari tók sér sólarhring til að ákveða hvort verða skyldi við beiðni lögreglu um áframhaldandi gæsluvarðhald. Þar sem Sindri Þór var ekki handtekinn eftir að gæsluvarðhaldsúrskurðurinn rann út var lögreglu í raun óheimilt að halda honum föngum, að mati Kristínar. 

Hún vísaði í máli sínu í fordæmi sem sett var af Hæstarétti fyrir fimm árum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert