Vill fá svör um hæfi sveitarstjórnarmanna og tilboð og aðkomu Vesturverks

VesturVerk hyggst reisa Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði með því að byggja …
VesturVerk hyggst reisa Hvalárvirkjun á Ófeigsfjarðarheiði með því að byggja stíflur við fimm fjallavötn. mbl.is/Golli

Skipu­lags­stofn­un hef­ur sent Árnes­hreppi á Strönd­um er­indi þar sem óskað er eft­ir svör­um um atriði er varða form og af­greiðslu aðal­skipu­lags­breyt­inga vegna fyr­ir­hugaðrar Hvalár­virkj­un­ar. Spyr stofn­un­in m.a. um hæfi full­trúa í sveit­ar­stjórn, til­boð fram­kvæmdaaðila um sam­fé­lags­verk­efni og innviðaupp­bygg­ingu og hvort skipu­lagstil­lag­an hafi verið unn­in af þeim aðila.

Þá hef­ur stofn­un­in jafn­framt til skoðunar efni og fram­setn­ingu skipu­lags­breyt­ing­anna og mun ef til­efni er til kalla eft­ir frek­ari viðbrögðum sveit­ar­fé­lags­ins þar um þegar brugðist hef­ur verið við þeim spurn­ing­um sem þegar hef­ur verið til þess beint.

Aðal­skipu­lags­breyt­ing vegna fyr­ir­hugaðrar Hvalár­virkj­un­ar var samþykkt í sveit­ar­stjórn Árnes­hrepps 30. janú­ar. Gert hef­ur verið ráð fyr­ir virkj­un í aðal­skipu­lagi hrepps­ins í nokk­ur ár en með breyt­ing­un­um var iðnaðarsvæði fært til, heim­ild fyr­ir starfs­manna­búðum bætt við, íbúðarsvæði inn­an virkj­un­ar­svæðis fellt út og veg­ir um virkj­un­ar­svæðið skil­greind­ir sem og efnis­töku­svæði.

Í Árnes­hreppi eru tæp­lega fimm­tíu manns með lög­heim­ili og er það fá­menn­asta sveit­ar­fé­lag lands­ins. Í sveit­ar­stjórn eiga fimm full­trú­ar sæti og greiddu þrír þeirra at­kvæði með samþykkt til­lög­unn­ar en tveir voru á móti.

Vest­ur­verk, sem er í meiri­hluta­eigu HS Orku, hyggst reisa 55 MW virkj­un á Ófeigs­fjarðar­heiði í Árnes­hreppi. Hvalár­virkj­un er í ork­u­nýt­ing­ar­flokki ramm­a­áætl­un­ar um nýt­ingu og vernd­un lands­svæða og um­hverf­is­mat virkj­un­ar hef­ur þegar farið fram. Enn ligg­ur ekki fyr­ir hvernig raf­magnið yrði leitt frá virkj­un­inni og inná meg­in­flutn­ings­kerfi raf­orku og því hef­ur um­hverf­is­mat á þeim þætti ekki farið fram.

Áður en hægt er að gefa út fram­kvæmda­leyfi, sem er í hönd­um sveit­ar­stjórn­ar, þurfa aðal­skipu­lags­breyt­ing­ar að liggja fyr­ir, staðfest­ar af Skipu­lags­stofn­un.

mbl.is/​Krist­inn Garðars­son

Skipu­lags­stofn­un barst í byrj­un mars er­indi Árnes­hrepps þar sem óskað var staðfest­ing­ar á aðal­skipu­lags­breyt­ing­unni. Með er­indi sveit­ar­fé­lags­ins fylgdu bréf og um­sögn sveit­ar­stjórn­ar til þeirra sem gerðu at­huga­semd­ir við skipu­lagstil­lög­una á kynn­ing­ar­tíma. Jafn­framt fylgdu er­ind­inu minn­is­blöð tveggja full­trúa í sveit­ar­stjórn hrepps­ins þar sem bent er á nokk­ur atriði varðandi um­fjöll­un og málsmeðferð aðal­skipu­lags­breyt­ing­ar­inn­ar. Full­trú­arn­ir tveir greiddu at­kvæði gegn samþykkt skipu­lagstil­lög­unn­ar á fundi sveit­ar­stjórn­ar í lok janú­ar.

Þá barst Skipu­lags­stofn­un einnig er­indi frá Rjúk­andi, sam­tök­um um um­hverf­is,- nátt­úru- og minja­vernd í Árnes­hreppi, í lok mars. Í er­ind­inu kem­ur fram sú afstaða sam­tak­anna að breyt­ing­in sé hald­in al­var­leg­um ágöll­um og að Skipu­lags­stofn­un geti ekki staðfest hana óbreytta.

Á kynn­ing­ar­tíma til­lög­unn­ar í haust bár­ust sveit­ar­fé­lag­inu at­huga­semd­ir frá Land­vernd sem snúa m.a. að málsmeðferð og aðkomu fram­kvæmdaaðila Hvalár­virkj­un­ar.

Ber að fara yfir af­greiðslu sveit­ar­stjórn­ar

Stofn­un­inni ber sam­kvæmt skipu­lagslög­um að fara yfir form og efni varðandi af­greiðslu sveit­ar­stjórn­ar og gerð skipu­lags­ins. Með hliðsjón af er­indi Rjúk­andi, at­huga­semd­um Land­vernd­ar og minn­is­blöðum sveit­ar­stjórn­ar­full­trú­anna tveggja hef­ur Skipu­lags­stofn­un nú óskað eft­ir svör­um sveit­ar­stjórn­ar um nokk­ur atriði.

Í er­indi stofn­un­ar­inn­ar er bent á að í Árnes­hreppi fari sveit­ar­stjórn með verk­efni skipu­lags­nefnd­ar. Stofn­un­in ósk­ar því í fyrsta lagi eft­ir viðbrögðum sveit­ar­stjórn­ar við því sem fram kem­ur í minn­is­blaði sveit­ar­stjórn­ar­full­trú­anna tveggja um að í fund­ar­boði við upp­haf máls­ins hafi ekki verið tekið fram að fjalla ætti um skipu­lags­mál, þar með talið að samþykkja skipu­lags­lýs­ingu.

Einnig ósk­ar stofn­un­in eft­ir því að gerð verði grein fyrri aðkomu skipu­lags­full­trúa við meðferð máls­ins.

Aðkoma Vest­ur­verks að skipu­lags­gerð

Skipu­lags­stofn­un seg­ir að í grein­ar­gerð Árnes­hrepps með svör­um við at­huga­semd­um sem komu á kynn­ing­ar­tíma til­lög­unn­ar komi fram að fram­kvæmdaaðil­inn, Vest­ur­verk, hafi í októ­ber árið 2016 óskað eft­ir heim­ild sveit­ar­stjórn­ar til að vinna breyt­ingu á aðal­skipu­lagi sveit­ar­fé­lags­ins og deili­skipu­lag vegna Hvalár­virkj­un­ar í sam­ræmi við fram­lagða skipu­lags­lýs­ingu. Heim­ilaði sveit­ar­stjórn skipu­lags­gerðina og aug­lýsti í kjöl­farið lýs­ing­una.

Fossinn Drynjandi fellur ofan af Ófeigsfjarðarheiði.
Foss­inn Drynj­andi fell­ur ofan af Ófeigs­fjarðar­heiði. mbl.is/​Golli

Í minn­is­blöðum tveggja full­trúa í sveit­ar­stjórn Árnes­hrepps er gerð at­huga­semd við málsmeðferðina og af­greiðslu skipu­lags­breyt­ing­ar­inn­ar. Líta full­trú­arn­ir svo á að ekki hafi verið heim­ilt að fela fram­kvæmdaaðila að vinna til­lögu á breyt­ingu á aðal­skipu­lagi.

Óskar Skipu­lags­stofn­un skýr­inga á þess­ari til­hög­un og minn­ir um leið á að ekki er í skipu­lagslög­um gert ráð fyr­ir að aðrir en sveit­ar­fé­lagið standi að gerð til­lagna á aðal­skipu­lagi. Hins­veg­ar sé sam­kvæmt sveit­ar­stjórn­ar­lög­um heim­ilt að inn­heimta til­tek­inn kostnað vegna slíkr­ar skipu­lags­gerðar.

Hæfi full­trúa í sveit­ar­stjórn

Einnig ósk­ar Skipu­lags­stofn­un eft­ir því að sveit­ar­stjórn bregðist við at­huga­semd­um Rjúk­andi þess efn­is að odd­viti Árnes­hrepps hafi að mati sam­tak­anna verið van­hæf­ur við af­greiðslu breyt­ing­ar­inn­ar á aðal­skipu­lagi vegna fyrri aðkomu að mál­inu. Einnig er óskað eft­ir því að veitt­ar verði upp­lýs­ing­ar um inn­tak og um­fang viðskipta eins sveit­ar­stjórn­ar­full­trú­ans við Vest­ur­verk.

Í at­huga­semd­um Land­vernd­ar við aug­lýsta skipu­lagstil­lögu er því haldið fram að formann­mark­ar kunni að vera á um­fjöll­un sveit­ar­stjórn­ar­inn­ar. Var m.a. bent á að einn sveit­ar­stjórn­ar­full­trúi, sem tekið hefði þátt í af­greiðslu skipu­lags­breyt­ing­ar­inn­ar, kunni að hafa ein­stak­lings­lega og fjár­hags­lega hags­muni af því að Hvalár­virkj­un verði að veru­leika.

Skipu­lags­stofn­un minn­ir í þessu sam­bandi á að sam­kvæmt sveit­ar­stjórn­ar­lög­um beri sveit­ar­stjórn­ar­manni að víkja sæti við meðferð og af­greiðslu máls þegar það varðar hann eða nána vensla­menn hans svo sér­stak­lega að al­mennt megi ætla að vilja­afstaða hans mót­ist að ein­hverju leyti þar af.

Til­boð um sam­fé­lags­verk­efni

Í at­huga­semd­um Land­vernd­ar kom einnig fram að fram­kvæmdaaðil­inn Vest­ur­verk hafi gefið til kynna op­in­ber­lega að hann hygg­ist veita bein­um fjár­fram­lög­um til til­tek­inna en ótengdra verk­efna sveit­ar­fé­lags­ins og hafi þannig reynt að hafa bein áhrif á ákv­arðana­töku sveit­ar­stjórn­ar í skipu­lags­mál­um er varðar hags­muni sína.

Í fylgigögn­um með at­huga­semd Land­vernd­ar er af­rit af er­indi Vest­ur­verks til Árnes­hrepps þar sem kem­ur fram að fyr­ir­tækið sé til­búið að fara í samn­inga­gerð við sveit­ar­stjórn um upp­bygg­ingu ým­issa innviða í sveit­ar­fé­lag­inu sam­hliða bygg­ingu virkj­un­ar­inn­ar. Þar seg­ir m.a.: „Hér að neðan [er] listi yfir þau sam­fé­lags­verk­efni sem­VV gæti komið að, komi til virkj­un­ar Hvalár í Ófeigs­firði eða þegar fram­gang­ur virkj­un­ar­fram­kvæmda hef­ur verið tryggður.“ Á list­an­um er að finna ýmis verk­efni, s.s. þriggja fasa raf­magn­steng­ingu, ljós­leiðara­teng­ingu og hita­veitu­fram­kvæmd­ir.

Tæplega fimmtíu manns eru með lögheimili í Árneshreppi á Ströndum. …
Tæp­lega fimm­tíu manns eru með lög­heim­ili í Árnes­hreppi á Strönd­um. Inn­an við þrjá­tíu eru þar með vet­ur­setu. mbl.is/​Golli

Í minn­is­blaði sveit­ar­stjórn­ar­full­trú­anna tveggja er því haldið fram að til­raun­ir hafi verið gerðar af hálfu fram­kvæmdaaðila, sem hafi veru­legra fjár­hags­legra hags­muna að gæta, til að hafa áhrif á kjörna full­trúa í mál­inu. Til­boð fram­kvæmdaaðila til sveit­ar­stjórn­ar um fjár­hags­leg­an stuðning við til­tek­in verk­efni sem nefnd eru í tveim­ur bréf­um (júní 2017 og janú­ar 2018) telj­ist óeðli­leg, þar með tal­in hug­mynd um bygg­ingu svo­kallaðrar gesta­stofu í óbyggðum.

Í er­indi nátt­úru­vernd­ar­sam­tak­anna Rjúk­andi til Skipu­lags­stofn­un­ar er vísað til al­mennra hegn­ing­ar­laga um að það sé refsi­vert að gefa, lofa eða bjóða op­in­ber­um starfs­manni, gjöf eða ann­an ávinn­ing sem hann á ekki til­kall, í þágu hans eða annarra, til að fá hann til að gera eitt­hvað eða láta eitt­hvað ógert sem teng­ist op­in­ber­um skyld­um hans. Jafn­framt kem­ur fram sú afstaða sam­tak­anna að ljóst megi vera að hin svo­kölluðu sam­fé­lags­verk­efni séu eng­in sam­fé­lags­verk­efni held­ur gjaf­ir til fárra aðila.

Skipu­lags­stofn­un ósk­ar eft­ir upp­lýs­ing­um um hvenær of­an­greind er­indi Vest­ur­verks voru af­greidd af sveit­ar­fé­lag­inu og hvaða af­greiðslu þau hlutu. Koma þarf fram hvort og þá hvernig afstaða til þeirra og af­greiðsla tengd­ist af­greiðslu sveit­ar­fé­lags­ins á skipu­lagstil­lög­um sem varða Hvalár­virkj­un svo sem hvort er­ind­in voru til um­fjöll­un­ar og af­greidd á sama fundi og skipu­lagstil­lög­ur varðandi virkj­un­ina.

Get­ur lagt til synj­un eða frest­un

Ásdís Hlökk Theo­dórs­dótt­ir, for­stjóri Skipu­lags­stofn­un­ar, seg­ir í skrif­legu svari til mbl.is að ekki sé óal­gengt að óskað sé eft­ir frek­ari gögn­um frá sveit­ar­fé­lög­um áður en ákvörðun um staðfest­ingu skipu­lags­breyt­inga er tek­in hjá stofn­un­inni. „Það er þó al­geng­ara að slíkt varði efni eða fram­setn­ingu skipu­lags­ins frem­ur en form og af­greiðslu,“ seg­ir hún.

Af­greiðsla á aðal­skipu­lags­breyt­ing­um er með þeim hætti að Skipu­lags­stofn­un þarf að samþykkja þær og birta til gildis­töku í Stjórn­artíðind­um að fengn­um full­nægj­andi svör­um og eft­ir at­vik­um breyt­ing­um á til­lög­unni. „Ef hins­veg­ar reyn­ast vera form- eða efn­is­gall­ar sem hamla staðfest­ingu að mati stofn­un­ar­inn­ar ber henni að af­greiða málið til um­hverf­is- og auðlindaráðherra og leggja til synj­un eða frest­un á staðfest­ingu,“ seg­ir Ásdís Hlökk í svari sínu til mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert