Hann er allt annar maður

Daði Gunnlaugsson (t.h.) vinnur hjá Leturprenti og unir hag sínum …
Daði Gunnlaugsson (t.h.) vinnur hjá Leturprenti og unir hag sínum vel hjá yfirmanni sínum Burkna Aðalsteinssyni. Ásdís Ásgeirsdóttir

Hjá Specialister­ne er ein­stak­lings­miðuð áætl­un gerð þar sem þjálfuð er tölvu­færni, farið í lík­ams­rækt og mik­il áhersla lögð á stund­vísi og mæt­ingu. Eitt helsta mark­miðið er að koma fólki á ein­hverfurófi í at­vinnu og vilja Specialister­ne gjarn­an fá fleiri fyr­ir­tæki í lið með sér til að taka slík­an starfs­kraft í vinnu til sín.

„Rúm­lega hundrað ein­stak­ling­ar hafa náð að bæta líf sitt hjá okk­ur, yfir fimm­tíu hafa þegar kom­ist út á at­vinnu­markaðinn og aðrir úr hópn­um eru í start­hol­un­um,“ seg­ir Eygló Ing­ólfs­dótt­ir, ein­hverf­uráðgjafi hjá Specialister­ne. Í full­um störf­um eru þau Bjarni Torfi Álfþórs­son fram­kvæmda­stjóri og Bjarn­dís Arn­ar­dótt­ir þjón­ust­u­stjóri. 

Bjarndís Arnardóttir þjónustustjóri, Eygló Ingólfsdóttir einhverfurófsráðgjafi og Bjarni Torfi Álfþórsson …
Bjarn­dís Arn­ar­dótt­ir þjón­ust­u­stjóri, Eygló Ing­ólfs­dótt­ir ein­hverfurófs­ráðgjafi og Bjarni Torfi Álfþórs­son fram­kvæmda­stjóri vinna hjá Specialister­ne. Ásdís Ásgeirs­dótt­ir

Ýmis störf henta vel

„Specialister­ne voru stofnuð árið 2010 og hófu starf­semi ári síðar. All­ir sem hafa farið héðan til vinnu fá laun­in í sinn vasa en okk­ar upp­skera og gleði felst í því að hafa komið ein­hverj­um út á vinnu­markaðinn,“ seg­ir Bjarni og bæt­ir við að flest­ir skjól­stæðing­arn­ir séu á aldr­in­um 25-35, en stofn­un­in er opin öll­um átján ára og eldri. Um tutt­ugu manns mæta þar dag­lega í dag­skrá hjá Specialister­ne.


„Við setj­um þetta þannig upp að við von­um að at­vinnu­rek­end­ur séu til í að prófa að fá ein­stak­ling á ein­hverfurófi í vinnu. Ef það geng­ur ekki upp í ein­hverj­um til­vik­um tök­um við fólkið aft­ur til okk­ar,“ seg­ir Eygló og bend­ir á að þau sendi ekki fólk í vinnu nema þau séu viss um að viðkom­andi ein­stak­ling­ur geti spjarað sig.


Þau segja ýmis fjöl­breytt störf henta mörg­um ein­hverf­um, eins og lag­er­störf, tölvu­vinnsla, skönn­un­ar­verk­efni og vinna í versl­un­um svo eitt­hvað sé nefnt.

Sam­fé­lags­leg ábyrgð fyr­ir­tækja

Leitið þið til fyr­ir­tækja eða koma þau til ykk­ar?

„Við leit­um mjög mikið til fyr­ir­tækja. Við boðuðum eitt sinn til fund­ar og for­stjór­ar og fram­kvæmda­stjór­ar komu. Öllum leist frá­bær­lega á hug­mynd­ina. Við send­um póst á þá og þeir tóku vel í þetta. En svo eft­ir því sem það kem­ur nær þeim sem eiga að vinna með þess­um ein­hverfa verður þrösk­uld­ur­inn hærri og við kom­umst ekki yfir hann. Menn setja alltaf ein­hver spurn­ing­ar­merki við þetta,“ seg­ir Bjarni.


„Síðastliðið sum­ar ákvað Lands­virkj­un að bjóða ung­menn­um okk­ar sum­arstörf við garðyrkju og sýn­ir með því sam­fé­lags­lega ábyrgð í verki og er það mjög já­kvætt. Þetta er að mjak­ast í rétta átt. Ein­stak­ling­ar frá okk­ur hafa til dæm­is verið að vinna hjá Þjóðskrá í skönn­un­ar­verk­efni öxl í öxl við há­skóla­menntað fólk og það gekk mjög vel. Þau voru kannski ekki að af­kasta jafn miklu en sjáðu bara feg­urðina í því að gefa þeim tæki­færi,“ seg­ir hann og nefn­ir að vel gangi hjá skjól­stæðing­um þeirra hjá öll­um fyr­ir­tækj­um, t.d. hjá Let­ur­prenti.


„Þar er okk­ar maður Daði bú­inn að vinna í mörg ár og hef­ur farið með þeim í marg­ar ferðir til út­landa. Hann er tek­inn þar inn sem full­gild­ur starfsmaður,“ seg­ir Eygló.

Allt ann­ar maður

Burkni Aðals­steins­son seg­ist mjög ánægður með Daða Aðal­steins­son sem er á ein­hverfurófi.

„Það er ótrú­legt hvað hann hef­ur vaxið. Svo er hann bú­inn að kaupa sér íbúð og býr einn. Því­lík breyt­ing, þetta er eins og lyga­saga. Hann er allt ann­ar maður. Tek­ur þátt í sam­ræðum, sem hann gerði ekki áður. Þetta hef­ur breytt hon­um rosa­lega. Það er gam­an að fylgj­ast með því,“ seg­ir hann.

Daði finn­ur mik­inn mun á sér eft­ir að hann hóf störf hjá Let­ur­prenti. 

„Ég er mjög ánægður hér, ég kýs frek­ar að vinna en að vera at­vinnu­laus. Þegar maður er ekki að gera neitt kem­ur alltaf þessi hugs­un; ég er ekki að gera neitt fyr­ir þjóðfé­lagið, ég er ekki að gera neitt fyr­ir landið. Ég er bara hér að lifa á kerf­inu. Þá fær maður þessa hræðilegu til­finn­ingu að maður sé gagns­laus. Að vera ekki að gera neitt. Ég er aðallega að vinna af því að ég vil gera eitt­hvað fyr­ir landið, fyr­ir þetta fyr­ir­tæki,“ seg­ir Daði. 

Grein­in í heild er í Sunnu­dags­blaði Morg­un­blaðsins um helg­ina. 

Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Þessi grein birt­ist
í Morg­un­blaðinu
Áskrif­end­ur:
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka