Hjá Specialisterne er einstaklingsmiðuð áætlun gerð þar sem þjálfuð er tölvufærni, farið í líkamsrækt og mikil áhersla lögð á stundvísi og mætingu. Eitt helsta markmiðið er að koma fólki á einhverfurófi í atvinnu og vilja Specialisterne gjarnan fá fleiri fyrirtæki í lið með sér til að taka slíkan starfskraft í vinnu til sín.
„Rúmlega hundrað einstaklingar hafa náð að bæta líf sitt hjá okkur, yfir fimmtíu hafa þegar komist út á atvinnumarkaðinn og aðrir úr hópnum eru í startholunum,“ segir Eygló Ingólfsdóttir, einhverfuráðgjafi hjá Specialisterne. Í fullum störfum eru þau Bjarni Torfi Álfþórsson framkvæmdastjóri og Bjarndís Arnardóttir þjónustustjóri.
„Specialisterne voru stofnuð árið 2010 og hófu starfsemi ári síðar. Allir sem hafa farið héðan til vinnu fá launin í sinn vasa en okkar uppskera og gleði felst í því að hafa komið einhverjum út á vinnumarkaðinn,“ segir Bjarni og bætir við að flestir skjólstæðingarnir séu á aldrinum 25-35, en stofnunin er opin öllum átján ára og eldri. Um tuttugu manns mæta þar daglega í dagskrá hjá Specialisterne.
„Við setjum þetta þannig upp að við vonum að atvinnurekendur séu til í að prófa að fá einstakling á einhverfurófi í vinnu. Ef það gengur ekki upp í einhverjum tilvikum tökum við fólkið aftur til okkar,“ segir Eygló og bendir á að þau sendi ekki fólk í vinnu nema þau séu viss um að viðkomandi einstaklingur geti spjarað sig.
Þau segja ýmis fjölbreytt störf henta mörgum einhverfum, eins og lagerstörf, tölvuvinnsla, skönnunarverkefni og vinna í verslunum svo eitthvað sé nefnt.
Leitið þið til fyrirtækja eða koma þau til ykkar?
„Við leitum mjög mikið til fyrirtækja. Við boðuðum eitt sinn til fundar og forstjórar og framkvæmdastjórar komu. Öllum leist frábærlega á hugmyndina. Við sendum póst á þá og þeir tóku vel í þetta. En svo eftir því sem það kemur nær þeim sem eiga að vinna með þessum einhverfa verður þröskuldurinn hærri og við komumst ekki yfir hann. Menn setja alltaf einhver spurningarmerki við þetta,“ segir Bjarni.
„Síðastliðið sumar ákvað Landsvirkjun að bjóða ungmennum okkar sumarstörf við garðyrkju og sýnir með því samfélagslega ábyrgð í verki og er það mjög jákvætt. Þetta er að mjakast í rétta átt. Einstaklingar frá okkur hafa til dæmis verið að vinna hjá Þjóðskrá í skönnunarverkefni öxl í öxl við háskólamenntað fólk og það gekk mjög vel. Þau voru kannski ekki að afkasta jafn miklu en sjáðu bara fegurðina í því að gefa þeim tækifæri,“ segir hann og nefnir að vel gangi hjá skjólstæðingum þeirra hjá öllum fyrirtækjum, t.d. hjá Leturprenti.
„Þar er okkar maður Daði búinn að vinna í mörg ár og hefur farið með þeim í margar ferðir til útlanda. Hann er tekinn þar inn sem fullgildur starfsmaður,“ segir Eygló.
Burkni Aðalssteinsson segist mjög ánægður með Daða Aðalsteinsson sem er á einhverfurófi.
„Það er ótrúlegt hvað hann hefur vaxið. Svo er hann búinn að kaupa sér íbúð og býr einn. Þvílík breyting, þetta er eins og lygasaga. Hann er allt annar maður. Tekur þátt í samræðum, sem hann gerði ekki áður. Þetta hefur breytt honum rosalega. Það er gaman að fylgjast með því,“ segir hann.
Daði finnur mikinn mun á sér eftir að hann hóf störf hjá Leturprenti.
„Ég er mjög ánægður hér, ég kýs frekar að vinna en að vera atvinnulaus. Þegar maður er ekki að gera neitt kemur alltaf þessi hugsun; ég er ekki að gera neitt fyrir þjóðfélagið, ég er ekki að gera neitt fyrir landið. Ég er bara hér að lifa á kerfinu. Þá fær maður þessa hræðilegu tilfinningu að maður sé gagnslaus. Að vera ekki að gera neitt. Ég er aðallega að vinna af því að ég vil gera eitthvað fyrir landið, fyrir þetta fyrirtæki,“ segir Daði.
Greinin í heild er í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.