Óskaði eftir upplýsingum um varðhaldið

mbl.is/Kristinn Magnússon

Sigríður Á. Andersen dómsmálaráðherra segir lög skýr um að enginn sitji í gæsluvarðhaldi án dómsúrskurðar. Hún var gestur Heimis Más Péturssonar í Víglínunni í dag, og ræddu þau m.a. um skýrslu GRECO, samtaka ríkja gegn spillingu, um Ísland og mál strokufangans Sindra Þórs Stefánssonar.

Mál strokufangans Sindra Þórs Stefánssonar kom til umræðu undir lok þáttar, og ýjaði Heimir Már að því að Íslendingar færu of frjálslega með gæsluvarðhaldsheimildir. Sigríður vildi ekki tjá sig um þetta einstaka mál en sagðist hafa óskað eftir upplýsingum um ferlið.

„Lögin eru alveg skýr, menn sitja ekki í fangelsi án þess að fyrir liggi dómsúrskurður. Ef þetta er einhvers konar verklag þá þarf að taka það til athugunar.“

Spurð út í spillingarmál og skýrslu GRECO sagði Sigríður meðal annars að umfjöllun fræðimanna hafa leitt í ljós að spilling fari hverfandi hér á landi þrátt fyrir að mikið sé talað um spillingu.

Heimir Már nefndi það að í skýrslunni kæmi fram að einhverjir hefðu nefnt að tengsl væru á milli framgangs innan lögreglunnar og þess að vera félagi í Sjálfstæðisflokknum, sem Sigríður vísaði algjörlega á bug. Þá sagði hún skýrsluna hafa sýnt að lögreglan nýtur mikils trausts hér á landi, sem væri ánægjulegt.

Sigríður sagði þó alveg augljóst mál að allir væru sammála samræmdum og gagnsæjum siðareglum innan embættisins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert