Landssöfnunin Vinátta í verki safnaði í fyrra um 40 milljónum króna í kjölfar náttúruhamfara á Vestur-Grænlandi. Nú er búið að ganga frá stofnun Sjálfseignarstofnunar sem útdeilir fénu í þágu barna og ungmenna á hamfarasvæðinu.
Eftir tvö ár er svo ætlunin að sjóðurinn nái til velferðarverkefna í þágu barna um allt Grænland, að því er fram kemur í tilkynningu.
Hrafn Jökulsson, skipuleggjandi landssöfnunarinnar, segir að hópurinn sem afskaplega glaður og þakklátur. Menn horfi með tilhlökkun til starfsemi velferðarsjóðsins.
Þann 17. júní í fyrra reið gríðarstór flóðbylgja yfir tvö þorp í Uummannaq firði á Vestur- Grænlandi, þorpin Nuugaatsiaq og Illorsuit. Hamfarirnar kostuðu fjögur mannslíf og sópuðu 11 húsum á haf út. Íbúarnir 170 talsins, urðu fyrir miklu áfalli og voru fluttir í skyndi yfir til Uummannaq sem er 1300 manna bær á samnefndri eyju um 600 km norðan við heimskautsbaug.
Þegar fréttir af hamförunum ógurlegu bárust til Íslands leiddi Hrafn, forseti skákfélagsins Hróksins, saman Kalak, vinafélag Íslands og Grænlands, og Hjálparstarf kirkjunnar og hóf landssöfnunina Vinátta í verki. Söfnunin var sett í gang í þágu fórnarlambanna, með sérstakri áherslu á börnin á svæðinu. Þúsundir Íslendinga tóku þátt í söfnuninni, fjölmörg fyrirtæki og öll sveitarfélög Íslands, 73 talsins gáfu til söfnunarinnar. Alls söfnuðust um fjörtíu milljónir íslenskra króna.
Þá segir, að söfnunarfé Íslendinga eigi að verja í samráði við heimamenn og flóttafólkið í Uummannaq og því hafi verið tekin ákvörðun um að í stjórn hennar sætu þrír Grænlendingar frá hamfararsvæðunum og tveir Íslendingar.