Gunnlaugur Snær Ólafsson
Það er ekki lögbrot fyrir fanga að strjúka úr fangelsi á Íslandi nema það sé gert í samráði við aðra fanga. Páll Winkel fangelsismálastjóri segir að viðurlög við að strjúka úr fangelsi séu annars vegar í formi agaviðurlaga.
„Hins vegar ef um er að ræða samantekin ráð þá er það refsiverður verknaður,“ segir Páll. Hann segir agaviðurlög vera allt frá áminningu, sem eru vægustu viðurlögin, yfir í einangrunarvist og er síðari viðurlögunum aðeins beitt vegna alvarlegustu agabrotanna.
Ofbeldi og strok eru alvarlegustu agabrotin að sögn Páls. „Strok úr afplánun getur haft áhrif á allan framgang fangelsisvistar. Það er tekið mið af hegðun í fangelsi og þessi brot falla augljóslega ekki undir góða hegðun í fangelsi,“ segir hann í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.