Strokufanginn Sindri Þór Stefánsson var handtekinn í miðborg Amsterdam í Hollandi í dag. Þetta staðfestir Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, við mbl.is.
Ólafur Helgi kveðst ekki geta staðfest neitt varðandi næstu skref í málinu.
„Það er beðið frekari fregna,“ segir hann en Vísir greindi fyrst frá handtökunni.
Rob van der Veen, talsmaður lögreglunnar í Amsterdam, staðfestir einnig við mbl.is að Sindri Þór hafi verið handtekinn í dag í miðborginni.
Hann segir lögregluna ekki vilja veita frekari upplýsingar um kringumstæður handtökunnar. Mál Sindra er núna hjá héraðssaksóknara í Amsterdam og er ekki ljóst með framvindu mála annað en að haft verði samband við íslensk yfirvöld um framhaldið.
Þorgils Þorgilsson, lögmaður Sindra Þórs, sagðist í samtali við mbl.is ekkert hafa heyrt af handtöku hans nema það sem hann las í fjölmiðlum í kvöld.
Sindri strauk úr fangelsinu á Sogni aðfaranótt þriðjudags.
Hann komst með flugi til Svíþjóðar morguninn eftir, áður en nokkur hafði gert sér grein fyrir því að hann var horfinn úr herbergi sínu. Talið er að hann hafi komist út um glugga.
Alþjóðleg handtökuskipun var gefin út á hendur Sindra og vegabréf hans var gert ógilt.
Grunur lék á að Sindri Þór hefði farið til Spánar en ekkert fékkst staðfest þess efnis.
Kristín Benediktsdóttir, dósent í réttarfari við Háskóla Íslands, greindi frá því kvöldfréttum RÚV á föstudag að Sindri Þór hefði átt að vera frjáls ferða sinna eftir að gæsluvarðhaldsúrskurður yfir honum rann út vegna þess að hann var ekki handtekinn að nýju.
Hún sagði það skýrt í stjórnarskrá að ekki megi svipta neinn frelsi nema með úrskurði dómara.