Forsætisráðherra hyggst leggja til við forseta Íslands að stjórnskipuleg ábyrgð á leyfisveitingum íslenskra stjórnvalda skv. 1. mgr. 78. gr. loftferðalaga vegna hergagnaflutninga með borgaralegum loftförum verði færð frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu til utanríkisráðuneytisins.
Þetta kemur fram á vef Stjórnarráðsins.
Þar segir, að þessi áform Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra um breytingu á forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands, sem og áform utanríkisráðuneytisins um endurskoðun reglna og breytt verklag við veitingu leyfa til hergagnaflutninga, hafi verið kynnt ríkisstjórn á fundi hennar fyrir helgi.
Ennfremur segir, að samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytið og utanríkisráðuneytið, í samráði við forsætisráðuneytið, hafi á undanförnum mánuðum unnið að því að endurskoða verkferla við veitingu leyfa vegna hergagnaflutninga.
„Ástæðan fyrir þessum breytingum á verkaskiptingu er sú að það mat sem fram fer við leyfisveitingar skv. 1. mgr. 78. gr. loftferðalaga snýr ekki að flugöryggi heldur fyrst og fremst að alþjóðlegum skuldbindingum og stefnu Íslands í alþjóðlegum öryggis- og varnarmálum, sem og mannúðar- og mannréttindamálum. Þessir málaflokkar heyra undir utanríkisráðuneytið og nauðsynleg sérþekking er því til staðar í því ráðuneyti. Sömu sjónarmið eiga við um 5. mgr. 78. gr. loftferðalaga, varðandi flutning annars varnings en hergagna til að halda uppi allsherjarreglu og öryggi,“ segir í tilkynningunni.