Lyfjastofnun framkvæmdi í síðustu viku úttekt á geislavirku lyfi, sem gefa þarf þeim sjúklingum sem fara í jáeindaskannann. Þetta staðfestir Bogi Brimir Árnason, heilbrigðisverkfræðingur á röntgendeild Landspítala.
Öllum undirbúningi við skannann er nú lokið og leyfi Lyfjastofnunar vegna lyfsins er það eina sem stendur eftir, en lyfið er svo skammlíft að framleiðsla þess fer fram á spítalanum. Bogi segir ströngum stöðlum fylgt við framleiðsluna líkt og annars staðar, en að hans sögn er misjafnt í öðrum löndum hvort að lyfið er framleitt á spítala eða framleitt annars staðar.
Hann kveðst líkt og áður gera ráð fyrir að afstaða Lyfjastofnunar til framleiðslunnar liggi fyrir innan mánaðar frá úttektinnni.
Heildarkostnaður verkefnisins er 1.038 milljónir og stærsti hlutinn er gjöf Íslenskrar erfðagreiningar til íslensku þjóðarinnar, en hlutur spítalans er 188 milljónir króna.