Hópur sem tengist Hauki Hilmarssyni hefur sent opið bréf til Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, þar sem þau óska eftir aðstoð stjórnvalda. Alls rita 400 einstaklingar undir bréfið.
„Haukur Hilmarsson hefur nú verið týndur í 48 daga. Enn sem komið er liggur engin ótvíræð
staðfesting fyrir um að hann hafi látið lífið í árásum Tyrklandshers á Afrin í Sýrlandi í febrúar
síðastliðnum, líkt og fyrstu fréttir af hvarfi hans gerðu ráð fyrir. Það þýðir að engar upplýsingar hafa fengist um örlög hans síðustu 48 daga og þar af leiðandi óljóst hvort jafnvel þurfi að grípa til lífsnauðsynlegra aðgerða honum til aðstoðar,“ segir í bréfinu.
„Við, undirrituð, getum ekki staðið þögul hjá og horft aðgerðalaus upp á frekari vanrækslu stjórnvalda í þessu máli. Þess vegna skorum við á þig að beita þér tafarlaust í máli Hauks með eftirfarandi hætti:
1. Reynt verði eftir öllum tiltækum leiðum að komast að því hvaðan tyrkneskir fjölmiðlar fengu þær upplýsingar að lík Hauks yrði sent til Íslands, eins og kom fram í flestum þeirra frétta sem birtust fyrst af málinu. Hið sama gildi um upplýsingar, sem Mbl.is hafði eftir kúrdískum blaðamanni í Sýrlandi, þess efnis að lík Hauks væri í höndum Tyrklandshers. Ekki verði staðar numið við yfirlýsingar tyrkneskra yfirvalda hvað þessar spurningar varðar, heldur verði óháðir aðilar fengnir til að komast að því hvort upplýsingarnar eigi við rök að styðjast.
2. Sé Haukur í haldi tyrkneskra yfirvalda eða bandamanna þeirra, lífs eða liðinn, beiti íslenska ríkið sér af fullum þunga til að fá hann til Íslands.
3. Aðstandendum Hauks verði tryggður fullnægjandi aðgangur að þeim gögnum sem varða framgang og niðurstöður athugunar íslenskra stjórnvalda á hvarfi hans.
4. Íslensk yfirvöld sæki formlega um leyfi frá tyrkneskum stjórnvöldum (eða öðrum viðeigandi stofnunum eða stjórnvöldum) fyrir því að hópur úr röðum aðstandenda Hauks fái að ferðast óáreittur til Afrin þar sem hópurinn getur leitað hans, en tyrknesk stjórnvöld fara nú að eigin sögn með stjórn svæðisins.“