„Ég sé ógeðslega eftir þessu“

Frá réttarhöldum yfir Marcin og Rafal Nabakowski í héraði.
Frá réttarhöldum yfir Marcin og Rafal Nabakowski í héraði. mbl.is/Golli

„Mér finnst voðal­ega leiðin­legt það sem gerðist en ég ætlaði aldrei að drepa neinn,“ sagði Marc­in Naba­kowski í mál­flutn­ingi í máli gegn hon­um og bróður hans, Rafal Naba­kowski, í Lands­rétti í morg­un.

Héraðsdóm­ur Reykja­vík­ur dæmdi bræðurna í ann­ars veg­ar tveggja ára og sjö mánaða fang­elsi og hins veg­ar tveggja ára og átta mánaða  fang­elsi fyr­ir að skjóta úr hagla­byssu fyr­ir utan versl­un í Efra-Brei­holti í ág­úst árið 2016.

Farið fram á þyngri refs­ingu

Ákæru­valdið áfrýjaði dómn­um en sak­sókn­ari fer fram á þyngri refs­ingu yfir bræðrun­um. Til vara er þess kraf­ist að héraðsdóm­ur verði ómerkt­ur og mál­inu vísað heim í hérað.

Í öðrum lið ákær­unn­ar var bræðrun­um gefið að sök að hafa hótað mönn­um með töng við bens­ín­stöð Select við Smáralind. Þeir hefðu með hót­un­um um of­beldi neytt ann­an mann til að aka bif­reið á til­tek­inn stað.

Vegna mis­mun­andi vitn­is­b­urða og annarra gagna þótti hins veg­ar ósannað í héraði að bræðurn­ir hefðu gerst sek­ir um þessa hátt­semi.

Við refsi­ákvörðun dóms­ins er ævi­löng öku­rétt­ar­svipt­ing Rafals áréttuð, auk þess sem Marc­in er dæmd­ur til að sæta sömu svipt­ing­ar. Þá er gerð upp­tæk hagla­byssa af gerðinni Winchester.

Var í mik­illi neyslu

Bræðurn­ir skutu báðir úr af­sagaðri hagla­byssu fyr­ir utan Leif­a­sjoppu í Breiðholti. Marc­in kveðst hafa skotið óvart úr byss­unni og ætl­un hans hafi aldrei verið að drepa neinn. „Ég var í mik­illi neyslu á þess­um tíma og hef gleymt miklu. Ég veit að það sem ég sagði í héraði er rétt og hef litlu við það að bæta,“ sagði Marc­in.

Fram kom að bræðurn­ir hefðu ekki tekið byss­una með sér í sjopp­una, held­ur tekið hana af öðrum manni. Hóp­ur manna hefði ráðist að bræðrun­um vegna þess að þeir túlkuðu fyr­ir Íslend­inga sem ráðist hafði verið inn hjá.

„Þetta er það fá­rán­leg­asta sem ég hef lent í,“ sagði Marc­in um ástæðu þess að ráðist var að þeim bræðrum. Um það þegar hann skaut úr byss­unni í bif­reið sagði Marc­in að það hefði verið slysa­skot.

„Ég er að snúa við blaðinu“

„Ég var ekki að reyna að drepa neinn, ég var að miða í jörðina,“ sagði Marc­in en skotið hafnaði í bif­reið, rétt fyr­ir neðan glugga á hlið.

Marc­in sagðist mikið sjá eft­ir at­b­urðunum og að hann hafi síðan þá tekið sig á. Hann eigi fjög­urra ára son sem hann hef­ur hjá sér tvær vik­ur í mánuði, stund­ar AA-fundi og hef­ur ekki verið í neyslu síðustu miss­eri. „Ég er að snúa við blaðinu. Þetta átti aldrei að ger­ast og ég sé ógeðslega eft­ir þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert