„Ég sé ógeðslega eftir þessu“

Frá réttarhöldum yfir Marcin og Rafal Nabakowski í héraði.
Frá réttarhöldum yfir Marcin og Rafal Nabakowski í héraði. mbl.is/Golli

„Mér finnst voðalega leiðinlegt það sem gerðist en ég ætlaði aldrei að drepa neinn,“ sagði Marcin Nabakowski í málflutningi í máli gegn honum og bróður hans, Rafal Nabakowski, í Landsrétti í morgun.

Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi bræðurna í annars vegar tveggja ára og sjö mánaða fangelsi og hins vegar tveggja ára og átta mánaða  fangelsi fyrir að skjóta úr haglabyssu fyrir utan verslun í Efra-Breiholti í ágúst árið 2016.

Farið fram á þyngri refsingu

Ákæruvaldið áfrýjaði dómnum en saksóknari fer fram á þyngri refsingu yfir bræðrunum. Til vara er þess krafist að héraðsdómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað.

Í öðrum lið ákær­unn­ar var bræðrun­um gefið að sök að hafa hótað mönn­um með töng við bens­ín­stöð Select við Smáralind. Þeir hefðu með hót­un­um um of­beldi neytt ann­an mann til að aka bif­reið á til­tek­inn stað.

Vegna mis­mun­andi vitn­is­b­urða og annarra gagna þótti hins veg­ar ósannað í héraði að bræðurn­ir hefðu gerst sek­ir um þessa hátt­semi.

Við refsi­ákvörðun dóms­ins er ævi­löng öku­rétt­ar­svipt­ing Rafals áréttuð, auk þess sem Marc­in er dæmd­ur til að sæta sömu svipt­ing­ar. Þá er gerð upp­tæk hagla­byssa af gerðinni Winchester.

Var í mikilli neyslu

Bræðurnir skutu báðir úr afsagaðri haglabyssu fyrir utan Leifasjoppu í Breiðholti. Marcin kveðst hafa skotið óvart úr byssunni og ætlun hans hafi aldrei verið að drepa neinn. „Ég var í mikilli neyslu á þessum tíma og hef gleymt miklu. Ég veit að það sem ég sagði í héraði er rétt og hef litlu við það að bæta,“ sagði Marcin.

Fram kom að bræðurnir hefðu ekki tekið byssuna með sér í sjoppuna, heldur tekið hana af öðrum manni. Hópur manna hefði ráðist að bræðrunum vegna þess að þeir túlkuðu fyrir Íslendinga sem ráðist hafði verið inn hjá.

„Þetta er það fáránlegasta sem ég hef lent í,“ sagði Marcin um ástæðu þess að ráðist var að þeim bræðrum. Um það þegar hann skaut úr byssunni í bifreið sagði Marcin að það hefði verið slysaskot.

„Ég er að snúa við blaðinu“

„Ég var ekki að reyna að drepa neinn, ég var að miða í jörðina,“ sagði Marcin en skotið hafnaði í bifreið, rétt fyrir neðan glugga á hlið.

Marcin sagðist mikið sjá eftir atburðunum og að hann hafi síðan þá tekið sig á. Hann eigi fjögurra ára son sem hann hefur hjá sér tvær vikur í mánuði, stundar AA-fundi og hefur ekki verið í neyslu síðustu misseri. „Ég er að snúa við blaðinu. Þetta átti aldrei að gerast og ég sé ógeðslega eftir þessu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert