Sindri úrskurðaður í gæsluvarðhald í Amsterdam

Sindri Þór var úrskurðaður í eins sólarhrings gæsluvarðhald í Amsterdam …
Sindri Þór var úrskurðaður í eins sólarhrings gæsluvarðhald í Amsterdam og á yfir höfði sér 19 daga til viðbótar. Ljósmynd/Lögreglan

Sindri Þór Stefánsson, fanginn sem strauk úr fangelsinu að Sogni, hefur verið úrskurðaður í eins sólarhrings gæsluvarðhalds af Héraðsdómi Amsterdam í Hollandi. Þetta upplýsir samskiptaskrifstofa héraðsdómsins í samtali við mbl.is.

Á morgun tekur dómari við Héraðsdóm Amsterdam mál Sindra Þórs fyrir að nýju og mun þá verða tekin ákvörðun um hvort hann verði úrskurðaður í gæsluvarðhald í 19 daga til viðbótar. Ekki hefur enn verið tekið til umfjöllunar framsal Sindra Þórs til Íslands og ekki liggur fyrir hvenær það ferli mun formlega hefjast.

Mynd á síma leiddi til handtöku

Franklin Wattimena, fjölmiðlafulltrúi Héraðssaksóknara embættisins í Amsterdam, staðfestir við mbl.is að Sindri Þór hafi verið handtekin í kjölfar ábendingar vegfarenda. Hafði einstaklingur tekið mynd á símann sinn af Sindra Þór úti á götu í miðborg Amsterdam og farið á næstu lögreglustöð. Þar hafi viðkomandi greint lögreglunni í Amsterdam frá því að þetta væri mynd af manni sem væri eftirlýstur á Íslandi.

Í kjölfar ábendingarinnar tók lögreglan málið til rannsóknar. Tveir lögregluþjónar voru sendir til þess að leita að Sindra Þór og fannst hann í miðborg Amsterdam þar sem hann var handtekinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert