Aðalmeðferðar í máli manns sem ákærður hefur verið fyrir ítrekuð brot gegn ungum dreng átti að ljúka í dag, en aðalmeðferð málsins hefur tafist og heldur meðferð málsins áfram á fimmtudag. Óli Ingi Ólason, saksóknari hjá embætti Ríkissaksóknara, segir við mbl.is að vonir standi til þess að ljúka aðalmeðferð málsins 26. apríl.
Maðurinn hefur sætt gæsluvarðhaldi frá 12. janúar á þessu ári og er gæsluvarðhaldsúrskurður í gildi til 9. maí. Óli segir dómara hafa fjórar vikur til að kveða upp dóm eftir að aðalmeðferð ljúki og að „gerð verður krafa um að hann [hinn ákærði] sitji í gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í málinu.“
Í málinu, sem byggir á tveim ákærum í fleiri liðum, er einn brotaþoli og var maðurinn meðal annars ákærður fyrir að hafa nauðgað drengnum dögum saman.