Þorgils Þorgilsson, verjandi Sindra Þórs Stefánssonar, sem nú situr í gæsluvarðhaldi í Amsterdam í Hollandi, ræddi stuttlega við hann í morgun. Þorgils hefur hins vegar eftirlátið hollenskum lögmanni Sindra ytra það að ráðleggja honum lögfræðilega varðandi hollensk lög. Sjálfur segist hann vera að bíða eftir frekari upplýsingum um málið að utan og frá íslenskum yfirvöldum, en fram hefur komið að farið verið fram á framsal á Sindra til landsins í þessari viku.
Sindri var í morgun úrskurðaður í 19 daga gæsluvarðhald af hollenskum dómara í Héraðsdómi Amsterdam, en um er að ræða gæsluvarðhald meðan á framsalsferli stendur. Þetta staðfesti Fatima el Gueriri, fjölmiðlafulltrúi héraðsdómstólsins, í samtali við mbl.is. Hún sagðist ekki geta veitt frekari upplýsingar um málsmeðferð í máli Sindra að svo stöddu.
Sindri mun ekki hafa tekið formlega afstöðu til framsals hjá dómara í morgun, enda þarf fyrst að liggja formleg framsalsbeiðni frá íslenska ríkinu. Þorgils útilokar þó ekki að Sindri hafi verið spurður út í afstöðu til framsals en það hafi þá ekki verið formlegs eðlis.
Ferlið er þannig að íslenska ríkið þarf að senda hollenskum yfirvöldum formlega framsalsbeiðni þar sem farið er fram á að Sindri verði framseldur til Íslands. Í kjölfarið yrði hann spurður út í afstöðu til beiðninnar. Samþykki hann beiðnina með skriflegri yfirlýsingu til saksóknara í Hollandi yrði hann sendur heim og gæti það ferli tekið innan við tíu daga.
Ef Sindri samþykkir ekki framsal þá þurfa hollensk stjórnvöld og dómstólar að fara yfir það hvort það eigi að framselja hann, en slíkt tekur mun lengri tíma, jafnvel einhverja mánuði.
Sindri strauk úr fangelsinu á Sogni aðfararnótt þriðjudags í síðustu viku og komst með flugi til Svíþjóðar áður en nokkur hafði gert sér grein fyrir því að hann væri horfinn. Sindri virðist svo hafa ferðast frá Svíþjóðar til Amsterdam í Hollandi þar sem hann var handtekinn síðastliðið sunnudagskvöld eftir ábendingu frá vegfaranda.
Vegfarandinn hafði tekið mynd af Sindra Þór með símanum sínum í miðborg Amsterdam og síðan farið á næstu lögreglustöð, sýnt lögreglunni myndina og sagt Sindra Þór vera eftirlýstan á Íslandi. Þá var í gildi alþjóðleg handtökuskipun á hendur honum.
Sindri hefur setið í gæsluvarðhaldi síðan 2. febrúar síðastliðinn vegna gruns um aðild að stórfelldum þjófnaði á tölvubúnaði úr gagnaveri. Alls var um 600 tölvum stolið og talið er að verðmæti þeirra nemi um 200 milljónum króna. Er um að ræða stærsta þjófnaðarmál Íslandssögunnar. Hann hafði verið á Sogni í tíu daga þegar hann strauk, en um er að ræða opið úrræði fyrir fanga.