Berglind Ásgeirsdóttir, sendiherra Íslands í Rússlandi, átta annasaman dag í Rostov í dag þar sem hún kynnti sér aðstæður fyrir heimsmeistaramótið í knattspyrnu. Einungis 52 dagar eru þar til flautað verður til leiks Argentínu og Íslands í Moskvu.
Síðasti leikur Íslands í riðlinum fer hins vegar fram í Rostov. Berglind heimsótti sjálfboðaliðamiðstöð FIFA í borginni og átti fund með skipulagsnefnd borgarinnar. Þá átti hún einnig fund með menningarmálaráðherra svæðisins, Vladimir Babin. og ríkisstjóra Rostov, Vasily Golubev.
Síðdegis heimsótti hún leikvanginn þar sem Ísland og Króatía mætast 26. júní. Leikvangurinn er glænýr og var vígður í síðustu viku og var það Ragnar Sigurðsson sem skoraði fyrsta markið á vellinum. Ragnar leikur með F.C. Rostov í Rússlandi og mun spila í hjarta varnarinnar í íslenska landsliðinu í sumar.
Sagt var frá heimsókn sendiherrans til Rostov á Facebook-síðu íslenska sendiráðsins í Moskvu og þar segir að Ragnar hafi vonandi gefið tóninn fyrir leikinn gegn Króötum.
Berglind hefur reynslu af því að sinna stórum verkefnum líkt og heimsmeistaramótinu þar sem hún gegndi starfi sendiherra Íslands í París á meðan evrópumótið í knattspyrnu stóð yfir fyrir tveimur árum og hefur því fengið viðurnefnið „Lukkudýrið“. Sendiráðið verður Íslendingum sem fara til Rússlands næsta sumar innan handar og er undirbúningur því tengdur í fullum gangi.