Sindri Þór Stefánsson hefur verið úrskurðaður í 19 daga gæsluvarðhald af hollenskum dómara í Héraðsdómi Amsterdam í dag. Þetta staðfestir Fatima el Gueriri, fjölmiðlafulltrúi héraðsdómstólsins, í samtali við mbl.is. Hún segist ekki geta veitt frekari upplýsingar um málsmeðferð í máli Sindra Þórs að svo stöddu.
Í gær var Sindri Þór úrskurðaður í eins sólarhrings gæsluvarðhald þar sem dómarinn í málinu vildi frekari tíma til þess að fara yfir gögn málsins. Hann hafði verið handtekinn á sunnudagskvöld af lögreglunni í Amsterdam eftir ábendingu frá vegfaranda. Vegfarandinn hafði tekið mynd af Sindra Þór með símanum sínum í miðborg Amsterdam og síðan farið á næstu lögreglustöð, sýnt lögreglunni myndina og sagt Sindra Þór vera eftirlýstan á Íslandi.
Franklin Wattemina, fjölmiðlafulltrúi embættis héraðssaksóknara í Amsterdam, segir við mbl.is að Sindri Þór sé með hollenskan verjanda í málinu.
Gefin var út alþjóðleg handtökubeiðni í kjölfar þess að Sindri Þór strauk úr fangelsinu að Sogni og komst af landi brott með flugi til Svíþjóðar.