Rannsókn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á svo nefndu Euro Market-máli er nú á lokametrunum að sögn Margeirs Sveinssonar yfirlögregluþjóns. „Það er verið að klára það,“ segir Margeir. Tekin verði ákvörðun um það á næstunni hvort að málið fari til héraðssaksóknara.
Hann kveðst ekki geta tjáð sig um það hvenær sú ákvörðun liggi fyrir. „Við erum að berjast við að ná þessu fyrir sumarvertíðina.“
Tugir grunaðir í Euro Market-máli
Áður hefur komið fram í fréttum að 28 einstaklingar og fjórir lögaðilar hafi réttarstöðu grunaðra hérlendis í málinu og segir Margeir litla breytingu hafa orðið á þeim fjölda.
Spurður hvort þeim málum sem tengjast rannsókninni hafi fjölgað undanfarið segir Margeir þeim mögulega hafa fjölgað um eitt. En í síðustu viku var greint frá því að nærri tíu önnur mál hafi komið upp í tengslum við Euro Market-málið og hafa um tuttugu manns til viðbótar réttarstöðu grunaðs í þeim málum.
Fram hefur komið að rannsóknin sé ein sú viðamesta sem lögreglan hafi ráðist í á skipulagðri glæpastarfsemi. Hún tengist fíkniefnaframleiðslu, fíkniefnasmygli, fjársvikum og peningaþvætti.
Eigendur og framkvæmdastjóri Euro Market voru handteknir og eru á meðal grunaðra í málinu. Höfuðpaurarnir eru pólskir og flestir hinna grunuðu er einnig pólskir.