Ef dráttur verður á framkvæmdum við endurbætur á hluta Þingvallavegar mun þurfa að gera hann að einstefnuvegi og veginn við vatnið að einstefnuvegi á móti. Við það færist stærri hluti umferðarinnar en nú er að Þingvallavatni.
Þingvallavegur er orðinn svo veikburða að Vegagerðin treystir honum ekki til að bera umferð í báðar áttir, hann sé hættulegur eins og slys og óhöpp sýni. Eftir tveggja ára undirbúning bauð Vegagerðin vegarkaflann út og fékk hagstæð tilboð. Skipulagsstofnun hafði samþykkt að framkvæmdin þyrfti ekki að fara í umhverfismat.
Landvernd kærði þá ákvörðun í síðasta mánuði til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála. Telja samtökin að gefa þurfi landsmönnum tækifæri til að segja álit sitt á svo stórri framkvæmd. Vegagerðin heldur að sér höndum með samninga á meðan málið er í vinnslu hjá úrskurðarnefndinni, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.