Samþykkt að endurupptaka mál Jóns Ásgeirs

Jón Ásgeir Jóhannesson
Jón Ásgeir Jóhannesson mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Endurupptökunefnd hefur samþykkt beiðni Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og Tryggva Jónssonar um endurupptöku á máli gegn þeim og Kristínu Jóhannesdóttur í tengslum við skattalagabrot í rekstri Baugs og fjárfestingafélagsins Gaums. Ríkissaksóknari hafði í greinargerð sinni talið sterk rök hníga til þess að endurupptaka yrði samþykkt.

Í úrskurði endurupptökunefndar segir að uppfyllt sé skilyrði um endurupptöku um að verulegir gallar hafi verið á meðferð máls þannig að það hafi áhrif á niðurstöðu málsins

Jón, Tryggvi og Kristín voru dæmd árið 2012 til refsingar og greiðslu sekta og sakarkostnaðar vegna skattalagabrot í rekstri Baugs og Gaums, en áður hafði þeim verið gert að greiða sektir með úrskurði yfirskattanefndar á árinu 2007.

Mannréttindadómstóll Evrópu komst að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hafi brotið á þeim þegar komi að banni við endurtekinni refsimeðferð, þ.e. að refsað sé oftar en einu sinni fyrir sama brot.

Í kjöl­far niður­stöðu Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins sendi Jón Ásgeir er­indi til end­urupp­töku­nefnd­ar með beiðni um að mál hans frá 2012 yrði end­urupp­tekið.

Í umsögn ríkissaksóknara við beiðninni kom fram að embættið teldi sterk rök hníga í þá átt að heim­ila bæri end­urupp­töku dóms Hæsta­rétt­ar. Í seinni um­sögn rík­is­sak­sókn­ara til nefnd­ar­inn­ar kom fram það álit embætt­is­ins að dóm­ur Hæsta­rétt­ar sem fallið hafi eft­ir dóm Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu í sam­bæri­legu máli gefi ekki annað til kynna en að Hæstirétt­ur telji að brotið hafi verið gegn rétti Jóns Ásgeirs árið 2012.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert