Samið við ljósmæður í heimaþjónustu

AFP

Samningur liggur fyrir á milli sjálfstætt starfandi ljósmæðra sem sinna heimaþjónustu og Sjúkratrygginga Íslands. Þetta staðfestir Arney Þórarinsdóttir, ljósmóðir og framkvæmdastjóri Bjarkarinnar, í samtali við mbl.is en ljósmæður voru boðaðar til fundar í kvöld með skömmum fyrirvara sem síðan skilaði umræddum samningi.

Samningurinn kveður á um það að sögn Arneyjar að þjónusta verði ekki skert og að ljósmæðurnar fái launahækkun sem nemur því lágmarki sem þær hafi verið reiðubúnar að sætta sig við. Málið hafi verið leyst með því að Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hafi veitt meira svigrúm með auknum fjármunum til samningsins.

„Við vorum boðaðar til fundar með 45 mínútna fyrirvara, mættum til hans klukkan hálfsjö, og ég var bara að keyra heim,“ segir Arney og bætir við að ljósmæðrum sé létt að ekki þurfi að fara inn í helgina með þjónustuna í uppnámi. Hún segir, spurð um framhaldið, að til hafi staðið að fara beint með samninginn til fulltrúa ráðherra.

„Samningurinn tekur í raun gildi við undirritun ráðherra þannig að þetta er í raun og veru bara frágengið. Ljósmæður gleðjast bara og hlakka til að geta sinnt sínum skjólstæðingum. Þetta er mikill léttir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert