Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra stendur við orð sín um að hvorki Bragi Guðbrandsson, forstjóri Barnaverndarstofu, né Barnaverndarstofa hafi gerst brotleg í starfi. Frá þessu greinir hann í samtali við RÚV í kvöld.
Þá segist hann ekki hafa leynt gögnum um rannsókn á máli Braga, heldur hafi það verið að hans frumkvæði að fá að hitta velferðarnefnd til að ræða möguleg brot Braga í starfi.
Að sögn Ásmundar hefur velferðarnefnd Alþingis sömu gögn undir höndum og velferðarráðuneytið. Gögnin bárust nefndinni á þriðjudag.
Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar Alþingis, hefur boðað Ásmund Einar á fund nefndarinnar mánudaginn. Halldóra telur að Ásmundur hafi sagt ósatt í þingsal þegar málefni forstjóra Barnaverndarstofu voru til umræðu. Þá segir hún að umfjöllun Stundarinnar um málið ýti undir það.
Ásmundur Einar segir að til greina komi að afhenda gögnin fjölmiðlum, að undanskildum persónugreinanlegum gögnum.
Varðandi tilnefningu Braga til setu í Barnaréttarnefnd Sameinuðu þjóðanna og hvort komi til greina að draga hana til baka segir Ásmundur að það muni skýrast að loknum fundi nefndarinnar á mánudag.