Sólveig Anna Jónsdóttir tók í kvöld formlega við formennsku í stéttarfélaginu Eflingu af Sigurði Bessasyni sem nú lætur af formennsku. Sólveig og B-listi hennar stóðu uppi sem sigurvegarar í stjórnarkjöri félagsins í síðasta mánuði, en hann fékk um 80% greiddra atkvæða í kjörinu.
Formannaskipti eru ekki daglegt brauð í þessu félagi sem er eitt stærsta stéttarfélag landsins með um 27 þúsund félagsmenn. Var stjórnarkjörið hið fyrsta síðan félagið var stofnað með sameiningu Dagsbrúnar & Framsóknar-stéttarfélags við Starfsmannafélagið Sókn og Félag starfsfólks í veitingahúsum árið 1998. Sigurður hafði verið formaður frá upphafi.
Þau sem tóku sæti í stjórn ásamt Sólveigu Önnu eru Magdalena Kwiatkowska hjá Café Paris, Aðalgeir Björnsson, tækjastjóri hjá Eimskip, Anna Marta Marjankowska hjá Náttúru þrifum, Daníel Örn Arnarsson hjá Kerfi fyrirtækjaþjónustu, Guðmundur Jónatan Baldursson, bílstjóri hjá Snæland Grímsson, Jamie Mcquilkin hjá Resource International ehf. og Kolbrún Valvesdóttir, starfsmaður búsetuþjónustu Reykjavíkurborgar.