„Það er mjög góð spurning,“ segir Þorgils Þorgilsson, lögmaður Sindra Þórs Stefánssonar, aðspurður hvað gerist þegar Sindri kemur til landsins eftir að hafa verið í varðhaldi í Amsterdam í Hollandi.
Sem kunnugt er var Sindri handtekinn þar í borg sl. sunnudag eftir flótta frá Sogni og þaðan með flugi til Svíþjóðar. Óskaði Sindri eftir að verða framseldur til Íslands.
„Í augnablikinu bíður hans ákveðin réttaróvissa. Verið er að skoða möguleikana í stöðunni. Það liggur ekki fyrir hvort hann fer beint í fangelsi. Núna erum við að skoða hvaða lagaheimildir eru til staðar. Það eru mörg lögfræðileg álitaefni uppi í þessu máli, sem er með því áhugaverðasta sem ég hef tekið mér fyrir hendur,“ segir Þorgils í umfjöllun um þetta mál í Morgunblaðinu í dag.