„Ég er ekki kunningi Braga“

Barnaverndarstofa er til húsa í Borgartúni.
Barnaverndarstofa er til húsa í Borgartúni. mbl.is/Ófeigur

Faðir manns­ins sem fjallað hef­ur verið um í Stund­inni seg­ir í yf­ir­lýs­ingu að eng­inn kunn­ings­skap­ur sé á milli sín og Braga Guðbrands­son­ar hjá Barna­vernd­ar­stofu. 

Í um­fjöll­un Stund­ar­inn­ar kem­ur fram að Bragi Guðbrands­son hafi beitt sér fyr­ir því að ung­ur maður fengi að um­gang­ast dæt­ur sín­ar sem hann var grunaður um kyn­ferðis­brot gegn. Bragi hafi átt í ít­rekuðum sam­skipt­um við föður manns­ins sem er þjóðkirkjuprest­ur og að hann hafi hlutast til um málsmeðferðina hjá barna­vernd­ar­nefnd. Er faðir­inn sagður málkunn­ug­ur Braga frá því að þeir störfuðu báðir við barna­vernd­ar­mál. 

Faðir manns­ins hef­ur sent frá sér yf­ir­lýs­ingu vegna frétt­ar Stund­ar­inn­ar þar sem hann tek­ur fram að hann sé ekki „kunn­ingi“ Braga. Hann seg­ir að að hann hafi einu sinni hitt Braga, ein­hvern tím­ann á ár­un­um 1981-1986, og að óskilj­an­legt sé að full­yrðing um kunn­ingja­skap hafi ratað í fjöl­miðla. 

Rík­is­út­varpið grein­ir frá því að opn­um fundi vel­ferðar­nefnd­ar, þar sem ræða á meint af­skipti Braga, verði frestað fram á miðviku­dag.

Hér að neðan er yf­ir­lýs­ing föður­ins. 

Ég er föðurafi tveggja stúlkna sem hafa þurft að þola það að viðkvæm­um trúnaðargögn­um um þær hef­ur verið lekið í fjöl­miðla, af því er virðist vegna ein­hvers kon­ar inn­byrðis deilna milli emb­ætt­is­manna. Mig hryll­ir við að ein­hver hafi notað sak­laus börn sem vopn í deil­um á vinnustað eða á Alþingi. Þá finn ég til mik­ils van­mátt­ar gagn­vart stjórn­sýslu þar sem aðgang­ur fjöl­miðla að slík­um viðkvæm­um per­sónu­grein­an­leg­um gögn­um virðist vera meiri en aðgang­ur þeirra sem sagðir eru málsaðilar í mál­un­um.

Ég er einnig faðir drengs sem hef­ur verið málaður upp sem skrímsli í Stund­inni, en þar er því nán­ast slegið föstu að hann sé hættu­leg­ur kyn­ferðis­brotamaður, þrátt fyr­ir að rann­sókn lög­reglu og Barna­húss hafi kom­ist að þeirri niður­stöðu að ekk­ert renndi stoðum und­ir ávirðing­ar barn­s­móður hans og fjöl­skyldu henn­ar gagn­vart hon­um sem born­ar voru upp í um­gengni- og for­ræðis­deilu.

Ég geri mér grein fyr­ir því að til eru þeir sem telja alla þá sem sakaðir eru um glæpi seka um þá þar til annað sann­ast. Því al­var­legri sem glæp­irn­ir eru, því of­stæk­is­fyllra er sumt fólk í því að for­dæma sam­borg­ara sína á grund­velli ásak­anna einna. Þeir sem eru þannig inn­rætt­ir verða að eiga það við sjálfa sig.

Sann­leik­ur­inn er hins veg­ar sá að barna­vernd­ar­yf­ir­völd hafa aldrei tálmað eða tak­markað um­gengni son­ar míns við dæt­ur sín­ar, hvorki á grund­velli meints gruns um kyn­ferðis­brot eða af öðrum ástæðum. Lög­regla og Barna­hús hafa rann­sakað ásak­an­ir sem áttu upp­runa sinn hjá barn­s­móður hans, en kom­ist að þeirri niður­stöðu að ekk­ert bendi til þess að þær ættu við rök að styðjast. Það er staðan í dag og á ég ekki von á því að það breyt­ist, þar sem slík brot áttu sér aldrei stað.

Vin­kona barn­s­móður son­ar míns, sem starfar hjá barna­vernd­ar­nefnd og hef­ur farið mik­inn í mál­inu, held­ur því fram að í gangi sé ‚rann­sókn‘ um þess­ar ásak­an­ir, en þrátt fyr­ir ít­rekaðar til­raun­ir hef­ur því ekki feng­ist svarað hvers eðlis slík rann­sókn er sögð vera eða hvers vegna þeir aðilar sem eiga að fram­kvæma slíka rann­sókn, þ.e. lög­regla og Barna­hús, hafa ekk­ert aðhafst í nær tvö ár og telja mál­inu lokið.

Barn­s­móðir son­ar míns hef­ur notað það sem eina af fjöl­mörg­um átyll­um síðustu ár til að tálma um­gengni að barna­vernd­ar­nefnd eða lög­regla banni hana. Lög­regla hef­ur getað staðfest að það sé ekki satt að þeir hafi nokk­urn tím­an haft af­skipti af um­gengni son­ar míns við börn sín. Barna­vernd­ar­nefnd svaraði hins veg­ar ekki fyr­ir­spurn­um frá syni mín­um eða lög­manni hans um það hvort að til væri ein­hver ákvörðun þar sem um­gengni væri tak­mörkuð eða hvort yf­ir­höfuð væri eitt­hvað mál í gangi hjá þeim sem hefði áhrif á gild­andi um­gengn­is­sam­komu­lag.

Það var vegna þess að ég fékk eng­in svör frá barna­vernd­ar­nefnd og vegna fram­göngu vin­konu barn­s­móður son­ar míns í mál­inu að ég hafði sam­band við Barna­vernd­ar­stofu og lagði þar fram form­lega kvört­un um málsmeðferð barna­vernd­ar­nefnd­ar. Ég ritaði for­stjóra þar einnig tölvu­póst yfir jól og ára­mót, eins og reynd­ar flest­um eða öll­um yf­ir­mönn­um barna­vernd­ar­nefnd­ar, sem og öll­um öðrum sem ég taldi vera færa um að aðhaf­ast eitt­hvað til að koma á um­gengni á meðan móðir héldi því fram að barna­vernd­ar­nefnd bannaði hana.

Ég finn mig knú­inn til að taka fram að ég er ekki „kunn­ingi“ Braga Guðbrands­son­ar og hann hef­ur að mér vit­andi aldrei gengið minna er­inda. Af fag­leg­um ástæðum hef ég haft sam­skipti við hann á árum áður, þegar ég starfaði við barna­vernd, en það eru senni­lega yfir þrjá­tíu ár síðan ég hafði slík sam­skipti við hann. Ég hef hitt Braga einu sinni á æv­inni, ein­hvern tím­ann á ár­un­um 1981-1986, þegar ég var formaður barna­vernd­ar­nefnd­ar og hann starfaði hjá Kópa­vogs­bæ. Það er all­ur kunn­ings­skap­ur minn við hann og skil ég ekki hvernig sú full­yrðing hef­ur ratað í fjöl­miðla og jafn­vel þingsal að tengsl væru okk­ar á milli.

Ég skrifaði tölvu­pósta til allra yf­ir­manna barna­yf­ir­valda sem ég fann sem gátu mögu­lega liðsinnt mér vegna þess að eig­in­kona mín og amma barn­anna var dauðvona. Hún vildi fá að verja ein­hverj­um stund­um með barna­börn­um sín­um um þess­ar síðustu hátíðir sín­ar. Til að reyna að ná því fram ónáðaði ég alla op­in­bera starfs­menn sem mér hug­kvæmd­ust.

Það hafði að minnsta kosti þau áhrif að lögmaður son­ar míns fékk ein­hver svör um um­gengni, en hann fékk um þetta leyti staðfest að það væri ekki barna­vernd­ar­nefnd sem tak­markaði um­gengni, held­ur ein­ung­is barn­s­móðir son­ar míns. Þannig gat hvorki Bragi Guðbrands­son eða nokk­ur ann­ar op­in­ber aðili haft af­skipti af því að koma á um­gengni, þrátt fyr­ir að vissu­lega hafi ég reynt hvað ég gat til að fá barna­vernd­ar­yf­ir­völd til að hafa milli­göngu á ein­hvern hátt.

Eig­in­kona mín fékk ekki að sjá barna­börn­in sín síðustu jól­in sem hún lifði. Hún sá þær varla í meira en klukku­stund áður en hún dó, und­ir lok­in þegar hún hafði varla meðvit­und til að vita af þeim. Ef ég hefði ein­hver völd eða sam­bönd sem ég hefði getað notað til að breyta því hefði ég gert það. En það var bara þannig að það var ekki op­in­ber aðili sem réði þessu og þannig eng­inn til að hafa óeðli­leg af­skipti af mér í hag. Það var heift barn­s­móður son­ar míns í um­gengn­is­deilu sinni við son minn sem kom í veg fyr­ir að við gæt­um haldið upp á síðustu jóla­hátíð henn­ar með allri fjöl­skyld­unni. Það er þyngra en tár­um taki.

Ég bið vin­sam­leg­ast fjöl­miðla, þing­menn og al­menn­ing að leyfa ekki heift og óbil­girni að særa fleiri. Hættið að nota sak­laus börn sem skot­færi í ljót­um leik stjórn­mála- og emb­ætt­is­manna. Hversu mik­il­vægt sem þið teljið það að koma höggi á and­stæðing, munið að það er raun­veru­legt fólk á bak við trúnaðargögn­in sem þið fenguð ein­hvern til að leka. Og að sá sem lek­ur trúnaðargögn­um vel­ur hverju er lekið úr sam­hengi og hvaða ósann­ind­um er hvíslað með.

Höf­und­ur er prest­ur og fyrr­um formaður barna­vernd­ar­nefnd­ar.

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert