Umhverfis- og skipulagsráð Reykjavíkur hefur hafnað umsókn um gistileyfi í 38 íbúðum í nýjum íbúðaturni í Bríetartúni 9-11. Málið bíður endanlegrar afgreiðslu byggingarfulltrúa.
Umsóknin hefur vakið athygli. Það er enda líklegt að aldrei hafi jafn margar íbúðir verið fráteknar í nýbyggingu með skammtímaleigu til ferðamanna í huga. Á vissan hátt hefði starfsemin verið framhald af Fosshótelsturninum sem er norður af íbúðaturninum á Höfðatorgi.
Samkvæmt sölulista Höfðatorgs var samanlagt verð þessara 38 íbúða um tveir milljarðar króna. Heimildir Morgunblaðsins herma að hópur fjárfesta sé að baki umsókninni og að hluti þeirra hafi boðið eigendum hótela að sjá um rekstur hótelíbúða. Mun áhuginn hafa verið mismikill, að því er fram kemur í blaðinu í dag.