„Af hverju ég er ekki frjáls skil ég ekki“

Sindri Þór Stefánsson situr nú í fangelsi í Hollandi.
Sindri Þór Stefánsson situr nú í fangelsi í Hollandi.

Sindri Þór Stefánsson, sem strauk úr fangelsinu á Sogni fyrr í mánuðinum og situr nú í fangelsi í Amsterdam, segir að samkvæmt lögum bíði hans ekkert gæsluvarðhald á Íslandi. Hann segist því ekki skilja af hverju hann er ekki frjáls ferða sinna. Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem hann sendi Vísi.is fyrr í dag.

Hann undrast einnig að handtökuskipun á hendur honum sé enn í gildi, enda hafi hún verið bundin við tvo þætti; annars vegar rannsóknarhagsmuni og hins vegar flótta hans úr fangelsinu.

Segir hann ekki hægt að vísa til þess að rannsóknarhagsmunir séu enn til staðar, enda hafi hann verið í opnu fangelsi á Íslandi, haft aðgang að sinni einkatölvu 16 tíma á sólarhring, nettengingu og farsíma.

„Gæsluvarðhöldin fyrstu sex vikurnar snerust um rannsóknarhagsmuni eftir það var ekki lengur farið fram á gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna. Það er því afleitt að handtökuskipunin sé tileinkuð rannsóknarhagsmunum, þeir eru einfaldlega ekki lengur til staðar.“

Ekki ólöglegt að flýja úr fangelsi á Íslandi

Sindri hefur einnig haldið því fram að hann hafi verið frjáls ferða sinna þegar hann strauk úr fangelsinu, en hann fór fyrir dóm þann 16. apríl þar sem farið var fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir honum. Dómari tók sér hins vegar sólahringsfrest til að kveða upp úrskurðinn.

Sindri strauk aðfararnótt 17. apríl, þegar í raun var ekki í gildi gæsluvarðhald yfir honum. Honum hafði hins vegar verið tjáð að ef hann færi þá yrði hann handtekinn.

„Ég var sem sagt frjáls samkvæmt lögum en samt yrði ég handtekinn ef ég færi en veit ég ekki fyrir hvað ég hefði verið handtekinn því það er ekki ólöglegt að flýja fangelsi á Íslandi, og ég var ekki einu sinni í fangelsi á þessum tímapunkti.“

Fær útiveru með morðingjum og eiturlyfjabarónum

Þegar í ljós kom að Sindri hafði strokið úr fangelsinu og komist úr landi var gefin út alþjóðleg handtökuskipun á hendur honum. Var hann að lokum handtekinn í Amsterdam í Hollandi eftir ábendingu frá vegfaranda. Þá hafði gæsluvarðhald yfir honum verið staðfest til 26. apríl.

Bendir Sindri á að ekki megi halda mönnum í gæsluvarðhaldi í lengur en 12 vikur án ákæru, en þegar síðasti gæsluvarðhaldsúrskurður var kveðinn upp, þann 17. apríl, hafði hann verið í haldi í 10 vikur.

 „Í dag sit ég í fangelsi í Amsterdam þar sem ég er læstur inni í 23 tíma á sólarhring og svo ein klukkustund á dag í útiveru með öðrum föngum. Sem skiptast í nokkra hópa þar á meðal eiturlyfjabaróna, morðingja nauðgara og ofbeldisfullar klíkur. Þetta telst alls ekki sem öruggt umhverfi. Af hverju ég er ekki frjáls skil ég ekki. Ég braut engin lög þegar ég fór frá Sogni, einnig voru engar lagaheimildir til að halda mér því ég var ekki fangi og einnig er ekkert gæsluvarðhald sem bíður þegar ég kem heim og því engin ástæða að halda handtökuskipuninni virkri. Það er því tilgangslaust fyrir mig að vera hér í fangelsinu í Amsterdam,“ segir Sindri að lokum í yfirlýsingu sinni til Vísis.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert