Ásmundur svaraði öllum

Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, segist ekki geta verið ábyrg fyrir …
Halldóra Mogensen, formaður velferðarnefndar, segist ekki geta verið ábyrg fyrir því hverst Ásmundur sendir tölvupóst. mbl.is/Kristinn Magnússon

Það voru mistök Ásmundar Friðrikssonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, að ganga ekki úr skugga um hvert hann sendir tölvupóst, segir Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata og formaður velferðarnefndar, í samtali við mbl.is

Ásmundur sakaði í gærkvöldi þingflokk Pírata um að „mígleka“ upplýsingum úr þinginu til Stundarinnar eftir að upplýsingar sem hann segist hafa sent velferðarnefnd og formanni hennar með tölvupósti voru birtar á vef Stundarinnar. Sagði Ásmundur að um trúnaðarbrest væri að ræða.

Halldóra segir að trúnaður hafi ekki ríkt um efni þess tölvupósts sem hún sendi frá sér. „Ég var að boða opinn fund eftir að ég var búin að lesa frétt stundarinnar [um mál Braga Guðbrandssonar]. Þetta var bara tilkynningarpóstur og það er enginn trúnaður um það, ég var að tilkynna nefndinni, forseta þingsins, ráðherra og þingflokknum mínum. Ég veit að margir aðrir þingmenn áframsendu tölvupóstinn á sína þingflokka, útaf því að þetta var tilkynning sem vert var að vita af.“

„Hann gerir bara 'reply all' (svara öllum). Þetta voru mistök af hans hálfu. Það átti ekki að vera neinn trúnaður um þessa tilkynningu. Ég get ekki verið ábyrg fyrir því ef hann skoðar ekki hvert pósturinn er að fara“ segir Halldóra.

Engu að síður óheppilegt

Spurð hvort það sé eðlilegt að samskipti þingmanna í millum sé dreift til fjölmiðla þó svo að tölvupóstur sé stílaður á þingmenn sem eiga ekki sæti í tiltekinni nefnd, segir Halldóra það engan vegin eðlilegt. „Það finnst mér ekki heppilegt og mér finnst það bara mjög leiðinlegt að það sé gert. Mér finnst líka leiðinlegt að strax sé hoppað á það að ásaka mig. Ég græði ekkert á því að leka þessum pósti, þetta er bara til þess að afvegaleiða annars mjög mikilvæga umræðu.“

Halldóra telur ástæðu til þess að taka umræðu um samskipti þingmanna, og bætir við að hún hafi boðið upp á að ræða þetta tiltekna atvik á fundi velferðarnefndar, „en Ásmundur var ekki til staðar á síðasta fundi velferðarnefndar.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert